Þau tímamót eru að verða í rekstri Íbúðalánasjóðs (ÍLS) að ríkið mun að óbreyttu ekki þurfa að leggja honum til verulegar fjárhæðir á næstunni vegna vanskila.
Þau eru þannig á hraðri niðurleið og eiga hagfelld ytri skilyrði þátt í því, að því er fram kemur í umfjöllun um vanskilavanda ÍLS í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður Erlingsson, forstjóri ÍLS, segir efnahagsbatann skila sér í rekstri sjóðsins. Ekki sé útlit fyrir að vanskil muni kalla á frekari framlög frá ríkinu – eiganda sjóðsins – á næstunni. Afskriftir hafa reynst ÍLS dýrar og er stór kostnaðarliður ríkisins vegna hrunsins senn að baki.