Annar bréfberi bar ekki út

Tvö mál hafa komið upp hjá Póstinum með skömmu millibili …
Tvö mál hafa komið upp hjá Póstinum með skömmu millibili þar sem bréfberar brugðust skyldum sínum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Morgunblaðið/Þorkell

Póstur á fjögurra daga tímabili um miðjan janúar barst ekki til íbúa í tveimur póstburðarhverfum í Mosfellsbæ og einu í Grafarvogi og hafa íbúar þar fengið bréf frá Póstinum þess efnis. Fyrr í dag sagði mbl.is frá sambærilegu atviki í Hlíðunum í Reykjavík. Hvorugur bréfberinn starfar lengur hjá Póstinum.

Að sögn Brynjars Smára Rúnarssonar, markaðsstjóra Póstsins, er um tvö aðskilin atvik að ræða. Íbúar í tveimur hverfum í Mosfellsbæ og einu í Grafarvogi hafi fengið skýringar- og afsökunarbréf frá Póstinum vegna pósts sem skilaði sér ekki. Þau bréf hafi verið dagsett frá byrjun janúar til 19. janúar. Bréfberinn sem var með hverfin starfi ekki lengur fyrir Póstinn. Pósturinn hafi komist til skila óskemmdur.

Svipað mál kom upp í Hlíðahverfi í Reykjavík þar sem bréfberi hafði ekki borið út hluta pósts frá 9. desember til miðs janúarmánaðar. Sagt var frá málinu á mbl.is fyrr í dag. Sá bréfberi starfar heldur ekki lengur fyrir Póstinn.

Brynjar segir að mál af þessu tagi komi upp öðru hvoru þó þau séu ekki algeng. Yfirleitt komist upp um þau eftir ábendingar frá íbúum í hverfunum.

Fyrri frétt mbl.is: Bréfberi brást skyldum sínum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert