Sums staðar á Laugaveginum og hluta Skólavörðustígsins er leyfilegt hlutfall á milli verslana og veitingastaða, samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar, jafnt. Gunnar Guðjónsson, kaupmaður við götuna og formaður Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, segir þekktar verslanir með alþjóðleg vörumerki ekki vilja opna í slíku umhverfi og segir afstöðu borgaryfirvalda byggjast á að þar verði Latínuhverfi en ekki verslunarhverfi. „Almenn verslun er orðin undir og við taka lundabúðir og veitingastaðir,“ segir Gunnar.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, segir að undanfarin ár hafi verið farið eftir reglum sem kveða á um tiltekið hlutfall verslana og veitingastaða. Þegar reglurnar voru fyrst settar var gengið út frá því að hlutfallið væri 70% verslanir og 30% veitingastaðir. Í fyrra var því breytt á hluta Laugavegar og Skólavörðustígs og er nú 50/50. „Það var talið geta lyft þessu svæði upp,“ segir Hjálmar.
Hann segir þetta eina af þeim leiðum sem hægt sé að fara til að tryggja fjölbreytta starfsemi í miðborginni, en segist ekki sjá fyrir sér að reynt verði að efla eina tegund verslana umfram aðrar við Laugaveginn.
Gunnar segir miður hversu lítil áhrif verslunar- og fasteignaeigendur hafi á þróun Laugavegarins og er uggandi um framtíð hans.
Hjálmar segir aftur á móti enga ástæðu til að hafa áhyggjur af Laugaveginum, gatan hafi sjaldan verið jafn lífleg.
Laugavegur að verða Latínuhverfi?