Ódýrara að leggja í Reykjavík

Bílastæðahúsið við Vitatorg. Þar mun gjaldskráin ekki hækka skv. tillögum …
Bílastæðahúsið við Vitatorg. Þar mun gjaldskráin ekki hækka skv. tillögum bílastæðanefndar. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Margfalt dýrara er að leggja í bílastæðahúsum í miðborgum höfuðborga annarra landa á Norðurlöndunum en í Reykjavík. Í Osló er það frá þrisvar og hálfum sinnum til sjö sinnum dýrara en hér, jafnvel þó miðað sé við fyrirhugaða hækkun gjaldskrá bílastæðahúsa Reykjavíkurborgar.

Bílastæðanefnd hefur lagt til að hækka gjald fyrir skammtímastæði í Kolaporti, á Vesturgötu, í Ráðhúsi og í Traðarkoti úr 80 í 150 krónur fyrir fyrstu klukkustundina. Hver klukkustund þar á eftir hækkar úr 50 krónum í 100. Í prósentum talið er það 87,5% hækkun á fyrstu klukkustundinni og 100% hækkun á aukaklukkustundunum.

Samkvæmt lauslegri úttekt mbl.is verður gjaldið í bílastæðahúsin í miðborg Reykjavíkur hins vegar enn langt frá því að jafnast við það sem þekkist í höfuðborgum Norðurlandanna, jafnvel þó að gjaldskrárhækkunin verði samþykkt í borgarráði.

Í Kaupmannahöfn kostar til dæmis 42 danskar krónur, jafnvirði 848 íslenskra króna, á hverja byrjaða klukkustund að leggja í bílastæðahúsi Q-Park við Magasin du Nord. Ódýrara er þó að leggja í bílastæðahúsi við Konungsgarð, þar kostar hver hafin klukkustund 30 danskar krónur, um 605 íslenskar. Það er fjórum sinnum dýrara en lagt er til að fyrsta klukkustundin kosti í miðborg Reykjavíkur og sex sinnum dýrara fyrir aukaklukkustundir eftir það.

Í Osló er klukkutímagjaldið í bílastæðahúsum í miðborginni frá 30-60 norskum krónum, um 525-1.050 íslenskar krónur, eftir staðsetningu. Það er 3,5-7 sinnum dýrara en fyrsta klukkustundin á að kosta í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar.

Í Stokkhólmi er klukkutímagjaldið frá mánudegi til laugardags frá 50-60 sænskum krónum, um 794-953 íslenskar. Það er rúmlega fimm til sex sinnum dýrara en verður fyrstu klukkustundina í Reykjavík verði gjaldskráin hækkuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert