Meirihluti þeirra lækna á Landspítalanum, sem sögðu upp fyrir áramót, hefur nú sagst munu draga uppsagnir sínar til baka, þótt enn hafi það ekki verið gert með formlegum hætti hjá öllum, samkvæmt upplýsingum Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans.
Páll sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að tíu læknar hefðu sent inn uppsagnarbréf með formlegum hætti fyrir áramót, og meirihluti þeirra hefði sagst ætla að draga uppsögnina til baka.
„Það er ákveðinn hópur lækna sem hefur sagt sínum yfirlæknum að þeir hyggist draga uppsagnir sínar til baka og við erum að sjálfsögðu ánægð með það en við bíðum þess að fá bréf um að þeir dragi uppsagnirnar til baka í hendur með formlegum hætti,“ sagði Páll.