Allt að þriggja ára fangelsisrefsing getur legið við því að skjóta undan póstsendingum ef brotið ef framið í ávinningsskyni samkvæmt lögum um póstþjónustu. Í öðrum tilfellum varða undanskot starfsmanna póstþjónustu sektum eða sex mánaða fangelsisvist. Tvö tilfelli komu nýlega upp þar sem bréfberar komu ekki pósti til skila.
Um tvö aðskilin mál var að ræða. Annað þeirra átti sér stað í hluta Hlíðahverfis en hitt í þremur póstburðarhverfum í Mosfellsbæ og Grafarvogi. Í báðum tilfellum hafði bréfberi ekki borið út allan póst sem átti að berast til viðtakenda í mislangan tíma. Allur pósturinn komst til skila eftir að upp komst um athæfi þeirra og hvorugur bréfberinn starfar lengur hjá Póstinum.
Í 49. grein laga um póstþjónustu segir að „[s]tarfsmönnum við póstþjónustu er óheimilt að rífa upp, ónýta eða skjóta undan póstsendingum, eða ónýta, aflaga eða skjóta undan skeytum sem veitt hefur verið móttaka til útburðar“.
Í 53. grein laganna er kveðið á um viðurlög við brotum á þeim. Þar kemur fram að þau varði við sektum en fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar. Gáleysisbrot skuli varða sektum. Sé brotið hins vegar framið í ávinningsskyni, hvort sem það er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum. Samkvæmt upplýsingum Póst- og fjarskiptastofnunar er það lögregla sem rannsakað ætluð brot á þessum lögum.
Tekið skal fram að Pósturinn hefur ekki kært bréfberana sem komu við sögu í málunum sem vísað var til hér á undan svo vitað sé og ekkert hefur komið fram um að þeir hafi svikist um að bera út hluta póstsins í ávinningsskyni.
Fyrri fréttir mbl.is: