Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina skora á fulltrúa Reykjavíkurborgar í Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að leggja fram tillögu á stjórnarfundi Strætó bs. þar um að öll stjórn byggðasamlagsins verði leyst frá störfum og ný stjórn skipuð. Stjórnin þurfi að sæta ábyrgð.
Í bókun borgarfulltrúanna segir að núverandi stjórn Strætó beri stjórnunarlega, faglega og pólitíska ábyrgð á verkefnum, verkferlum og aðgerðum í tengslum við þá fjölmörgu ágalla sem í ljós hafa komið við þjónustuveitingu við fatlað fólk. Skipan neyðarstjórnar breyti engu þar um. „Ítrekað hefur komið í ljós að þetta verkefni, og önnur verkefni, er ofviða núverandi stjórn og hefur hún misst traust íbúa höfuðborgarsvæðisins og borgarbúa til áframhaldandi verka.“
Þá beri meirihlutanum í Reykjavík skylda til að axla ábyrgð og sýna borgarbúum þá virðingu að skipa nýja stjórn í Strætó bs, aðeins þannig verði hægt að endurbyggja traust á stjórn Strætó og borgarstjórn í þessum málaflokki.
„Því er það tillaga Framsóknar og flugvallarvina að meirihlutinn í borgarstjórn hlutist til um að skipta út stjórnarmanni og varamanni sínum í byggðasamlaginu. Jafnframt skorum við á fulltrúa Reykjavíkurborgar í Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að leggja fram tillögu á stjórnarfundi þar um að öll stjórn Strætó bs. verði leyst frá störfum og ný stjórn skipuð, en Reykjavíkurborg er eigandi 60,3% í Strætó bs., skv síðasta ársreikningi og hefur vald samkvæmt því.“