Hefja afplánun í Hegningarhúsinu

Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson.
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson. mbl.is/Kristinn

Fjórir sakborningar í svonefndu Al Thani-máli, sem dæmdir voru í nokkurra ára fangelsi í Hæstarétti í gær, verða væntanlega vistaðir í opnum fangelsum og þurfa allavega að afplána helming dómanna áður en þeir geta óskað eftir reynslulausn miðað við þær reglur sem gilda í þeim efnum.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemburg, og Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, voru dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi hvor. Þeir voru allir fundnir sekir um markaðsmistotkun. Þá var Hreiðar Már sakfelldur fyrir umboðssvik og Sigurður og Magnús fyrir hlutdeild í umboðssvikum. Embætti sérstaks saksóknara sótti málið.

Hættulegum föngum forgangsraðað

„Enginn fer beint í opið fangelsi. Allir karlmenn koma fyrst til afplánunar í Hegningarhúsinu þar sem farið er yfir stöðu viðkomandi, brotaferil, ástand og annað þess háttar í samræmi við lög um fullnustu refsinga. Síðan eru menn eftir atvikum fluttir á Litla-Hraun eða í opnu fangelsin,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri, í samtali við mbl.is spurður almennt hvernig slík mál ganga fyrir sig í kerfinu. Tvö opin fangelsi eru til staðar í dag, annars vegar Kvíabryggja og hins vegar Sogn. Samtals er þar pláss fyrir 41 fanga. Spurður um biðtímann eftir afplánun segir Páll hann misjafnan.

„Vegna plássleysis þurfum við að forgangsraða af boðunarlista og við setjum í forgang þá sem við teljum hættulega og eftir því sem dómur er þyngri leggjum við meiri áherslu á að menn komi sem fyrst inn. Ef dómþoli óskar eftir því að komast inn, sem gerist annað slagið, þá gerum við það sem við getum til að verða við því. En að öðrum kosti eru menn boðaðir inn með 2-3 mánaða fyrirvara og mæti þeir á réttum tíma þá gengur þetta allt saman eðlilega fyrir sig. Ef menn mæta ekki er gefin út handtökubeiðni,“ segir Páll ennfremur. Biðtími eftir afplánun geti verið einhverjir mánuðir.

Verða að afplána allavega helming dóms

Spurður hversu lengi fangar kunna að vera vistaðir í Hegningarhúsinu segir Páll að það geti verið allt frá nokkrum dögum og upp í eitt ár. „Við reynum að senda fanga áfram í hin fangelsin eins fljótt og við mögulega getum þannig að það séu alltaf laus pláss í móttökufangelsunum.“ Samtals séu tólf pláss í Hegningarhúsinu og 12 í Kvennafangelsinu í Kópavogi þar sem konur fara til afplánunar. Eftir að komið er í varanlega afplánun geta fangar sótt um reynslulausn í fyrsta lagi eftir að hafa afplánað helming fangelsisdóms. Er þá miðað við að þeir hafi sýnt af sér góða hegðun.

„Skilyrði fyrir reynslulausn er að finna í lögum um fullnustu refsinga. Þrír möguleikar eru fyrir hendi í þeim efnum og Fangelsismálastofnunar að leggja mat á það. Í fyrsta lagi er möguleiki á reynslulausn eftir helming refsitímans, eftir 2/3 refsitímans og síðan engin reynslulausn sem á meðal annars við um menn sem eiga stór mál ókláruð í kerfinu, ef menn eru síbrotamenn og oft verið inni áður og ef þeir hegða sér illa í afplánun,“ segir Páll. Langstærstur hluti fanga hljóti hins vegar reynslulausn. Þá ýmist eftir afplánun helming dóms eða 2/3 hluta hans.

Fara fyrirvaralaust í lokað fangelsi við brot

Brjóti fangar hins vegar af sér í opnum fangelsum gilda mjög strangar reglur um það að sögn Páls og eru þeir þá fyrirvaralaust fluttir í lokuð fangelsi. Séu fangar í fyrsta sinn í afplánun, uppfylla öll skilyrði, sýna af sér góða hegðun o.s.frv. eigi hins vegar allir fangar jafnan rétt á vistun í opnum fangelsum. „Það eru allir jafnir fyrir lögunum og við leggjum mikla áherslu á að stjórnast aðeins af lögum og reglum en ekki tíðaranda í samfélaginu eða einhverju slíku.“ Spurður segir Páll að reynslulausn geti verið frá einu ári upp í fimm ár og lágmarksskilyrði að viðkomandi gerist ekki sekur um refsivert brot aftur.

Miðað við fyrrgreindar forsendur má gera ráð fyrir að Hreiðar Már þurfi að afplána í það minnsta tvö ár og níu mánuði í fangelsi áður en hann getur óskað eftir reynslulausn. Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson þurfa allavega að afplána tvö ár og þrjá mánuði hvor og Sigurður Einarsson í tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert