Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa sig ósammála umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um ályktunartillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.
Á fundi borgarráðs í gær birti velferðarráð umsögn um ályktunartillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áfengisfrumvarpið. Umhverfis- og skipulagsráð hafði áður gefið jákvæða umsögn um frumvarpið en annað var á borði hjá velferðarráði. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru ósammála umsögn ráðsins.
Í bókun benda þeir á að frumvarpið snúi að því að afnema einokunarsölu ríkisins á áfengi og um leið sé lögð aukin áhersla á forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði. „Frumvarpið gerir ráð fyrir því að Lýðheilsusjóður fái fimmfalt framlag frá því sem nú er. Að sögn World health organisation (WHO) hefur verð helmingi meiri áhrif en aðgengi. Lýðheilsusjóður á að nota þetta aukna framlag í þau verkefni sem WHO segir að sé mikilvægast að sinna. Mikilvægast er að hafa lýðheilsuúrræði handa þeim sem standa höllum fæti gagnvart áfengisneyslu.
Síðan árið 1987 hefur vínbúðum á Íslandi fjölgað úr 13 í 49. Afgreiðslutíminn hefur verið lengdur, nafninu breytt úr ÁTVR í vínbúðin og yfirlýst markmið einokunarverslunar ríkisins með áfengi hefur verið að auka aðgengi að því. Boðið er upp á netverslun og fría heimsendingu til þeirra sem búa meira en 25 km. frá næstu vínbúð. Þá hefur vínveitingastöðum fjölgað frá 1992 yfir 700%. Þrátt fyrir þetta aukna aðgengi hefur unglingadrykkja dregist verulega saman á Íslandi, svo mikið að það vekur athygli langt út fyrir landsteinana.
Því er hvergi haldið fram í frumvarpinu að áfengi sé venjuleg neysluvara. Um hana þurfa að gilda sérstakar og strangar reglur. Hins vegar þarf ekki að vera einokunarsala ríkisins til að selja þessa vöru,“ segir í bókuninni.