Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar mannslát sem átti sér stað í Hafnarfirði um miðjan dag í dag. Grunur leikur á um að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti, að sögn Kristjáns Inga Kristjánssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.
Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.
Samkvæmt heimildum mbl.is lést maðurinn af völdum hnífstungu. Einn er í haldi lögreglu, grunaður um verknaðinn.
Rannsókn málsins er á frumstigi og veitir lögregla ekki nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.