„Samfélaginu er mjög brugðið“

Matthildur tók þessa mynd við bænahúsið í dag. Fjölmargir hafa …
Matthildur tók þessa mynd við bænahúsið í dag. Fjölmargir hafa lagt blóm við húsið. Ljósmynd/Matthildur Bjarnadóttir

„Það fer ekki á milli mála að samfélaginu er mjög brugðið eftir voðaverk helgarinnar og ég persónulega veigraði mér við að vera miðsvæðis í dag,“ segir Matthildur Bjarnadóttir. Hún býr í Kaupmannahöfn ásamt eiginmanni sínum þar sem hún leggur stund á meistaranám í trúarbragðafræði. 

Hún segist hafa upplifað sorg þegar hún gekk um borgina í dag en andrúmsloftið sé ekki fullt af ótta heldur samstöðu. Fólk kinkar kolli til lögreglunnar og þakkar henni fyrir að standa vörð.

Atburðir helgarinnar óraunverulegir

„Það fór mikið fyrir sírenuvæli og þyrluhljóðum um eftirmiðdaginn og ég viðurkenni að ég fann fyrir létti þegar það var tilkynnt í fréttum að líklegast væri búið að ná gerandanum. Fjölmiðlar hér úti hafa staðið sig mjög vel í fréttaflutningi og það er mikil yfirvegun yfir allri umræðunni,“ segir Matthildur, aðspurð um andrúmsloftið í borginni í dag. „Þegar talað er við fólk sem varð vitni að árásunum lýsa því margir hversu óraunverulegt þetta er allt saman og að það hafi tekið tíma að átta sig á því hvað hafði gerst.“

„Þegar maður gengur í dag um borgina upplifir maður ákveðna sorg. Danska fánanum er hvarvetna flaggað í hálfa stöng og það var sérstakt að ganga fram hjá samkomuhúsi gyðinga í dag þar sem seinni skotárásin átti sér stað og ungur maður lét lífið,“ segir hún.

Þakka þeim fyrir að standa vörð

Bænahúsið gyðinga, þar sem karlmaður var skotinn til bana aðfaranótt sunnudagsins, er aðeins í um 200 metra fjarlægð frá skóla Matthildar og fór hún þangað í dag. „Það er staðsett um 200 metrum frá skólanum mínum en í dag var stemningin töluvert ólík því sem hún er venjulega. Fjölmargir hafa lagt leið sína þangað til þess að votta virðingu sína og leggja blóm þar sem árasin átti sér stað.“

Fjöldi fólks var samankominn við húsið í dag. „Þarna var saman kominn fjöldi fólks hvaðanæva af úr samfélaginu og af öllum trúarbrögðum til að sýna að þeim stendur ekki á sama. Það var gott að finna að andrúmsloftið var ekki fullt af ótta heldur samstöðu og það var fallegt að sjá hvernig fólk kinkaði kolli til þeirra lögregluþjóna sem þarna voru staðsettir vopnaðir vélbyssum. Ég tók sérstaklega eftir því að tveir ungir múslimar gengu upp að lögreglunni og þökkuðu þeim fyrir að standa vörð,“ segir Matthildur.

„Forsætisráðherra Danmerkur tók það fram í viðtali að þessir atburðir væru fyrst og fremst árás á lýðræðið en ekki trúarbragðastríð og mér sýnist flestir taka í sama streng, m.a. flestir talsmenn fyrir samfélög múslima í landinu. Það er vonandi að þessar árásir verði til þess að þjóðin standi enn betur saman í stað þess að valda þeirri sundrung sem þær líklegast áttu að gera.“

Matthildur Bjarnadóttir nemur guðfræði í Kaupmannahöfn.
Matthildur Bjarnadóttir nemur guðfræði í Kaupmannahöfn. Úr einkasafni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka