Á laugardaginn sprengdu sjö bílar dekk með skömmu millibili í sömu holunni á Vesturlandsvegi á leið austur gegnt Nóa Siríus, að sögn viðmælanda mbl.is sem lenti í því sama. Frá áramótum hafa 30 ökumenn tilkynnt Vegagerðinni um tjón á bílum vegna skemmda í vegum, langflest á höfuðborgarsvæðinu þar sem ástandið er verst.
Líklegt verður að teljast að tjón af völdum hola í vegum séu mun fleiri þar sem vantar tölur um tjón sem hafa orðið á vegum sveitarfélaganna auk þeirra tjóna sem ekki hefur verið tilkynnt um. Hreinn Haraldsson, forstjóri Vegagerðarinnar sem rætt er við í myndskeiðinu, segir að ástandið sé mun verra en hann hafði séð fyrir. Tíðin að undanförnu þar sem skipst hefur á með kulda og tilheyrandi saltnotkun og miklum leysingum hafi gert ástandið mun verra.
Einn viðmælandi mbl.is sem lenti í tjóni upp á 200 þúsund krónur þarf að greiða allan kostnað úr eigin vasa þar sem kaskótrygging tryggir fólk ekki fyrir tjónum af þessu tagi. Þá hefur Sjóvá sem tryggir Vegagerðina ekki viljað greiða tjónþolum vegna skemmda í vegum sem ekki hefur verið tilkynnt um áður en óhappið á sér stað.
Að sögn Hreins var samþykkt 850 milljón króna aukaframlag, til viðbótar við þá 5 milljarða sem hefur verið varið til viðhalds vegakerfisins árlega, í fjárlögum þessa árs. Verði þeirri upphæð varið til verkefnisins á næstu árum verði hægt að snúa þróuninni við en á undanförnum árum hefur verið skorið verulega niður í viðhaldi vegakerfisins sem vegfarendur eru nú að súpa seyðið af.
Sjá fyrri frétt mbl.is: Göturnar að breytast í malarvegi
Sjá fyrri frétt mbl.is: Slæmir vegir skemma bíla
Lesendur mbl.is eru hvattir til að senda inn myndir af skemmdum á bílum sínum sem rekja má til slæms ástands vega.