Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun athafnamanninn Hannes Smárason fyrir fjárdrátt. Hannes var ákærður fyrir að hafa án heimildar stjórnenda FL Group látið millifæra fjármuni sem námu 2,87 milljörðum króna af reikningi félagsins á reikning eignarhaldsfélagsins Fons árið 2005.
Sérstakur saksóknari taldi hæfilegt að Hannes yrði dæmdur í 2-3 ára fangelsi í málinu, sem nefnt hefur verið eftir Sterling flugfélaginu.
Frétt mbl.is: „Ég man ekkert eftir þessu“
Fátt var um svör hjá Hannesi við aðalmeðferðina en og voru þau nær undantekningarlaust á þann veg að hann kannaðist ekki við skjöl, vissi ekkert hvernig þau væru tilkomin og myndi ekki eftir tölvupóstum sem undir hann voru bornir. Bar hann meðal annars því við að nær tíu ár væru liðin frá þeim tíma sem þeir hafi verið skrifaðir og hann hafi átt í gríðarlega miklum samskiptum í gegnum tölvupóst á þessum tíma.
Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari sagði við aðalmeðferðina að sannað væri að mati ákæruvaldsins að Hannes hefði með ólögmætum hætti ráðstafað umræddum fjármunum í heimildarleysi og ennfremur haldið upplýsingum um þá ráðstöfun leyndri fyrir stjórnendum og starfsmönnum félagsins.