Mikið álag á leigubílum vegna holanna

Leigubílstjórar eru þreyttir á ástandi vega á höfuðborgarsvæðinu.
Leigubílstjórar eru þreyttir á ástandi vega á höfuðborgarsvæðinu. Jim Smart

Tveir leigubílstjórar lentu í tjóni sama kvöldið fyrr á þessu ári þegar þeir óku báðir ofan í sömu holuna á Suðurlandsvegi. Dekk sprakk á báðum bílunum og þá eyðilagðist einnig dempari á öðrum bílnum. Bílstjórarnir bera sjálfir kostnaðinn vegna viðgerða og varahluta. Annar þeirra segir skelfilegt að aka um götur höfuðborgarsvæðisins og mikið álag sé á bílunum.

Sigurður Dagbjartsson, leigubílstjóri hjá bifreiðastöðinni Hreyfli, ók eftir Suðurlandsveginum áleiðis að brúnni yfir Vesturlandsveg að um áttaleytið að kvöldi 1. janúar á þessu ári. Keyrði hann ofan í holu og sprakk við það eitt dekk á bílnum. Rétt eftir klukkan tíu sama kvöld ók annar leigubílstjóri ofan í sömu holu.

Sigurður segir í samtali við mbl.is að hvorki hann né hinn leigubílstjórinn fái tjónið bætt í gegnum tryggingarfélag sitt. Í bréfi frá tryggingarfélagi hans komi fram að að Vegagerðin hafi fengið upplýsingar um holuna sem Sigurður ók ofan í rétt eftir klukkan hálf tíu sama kvöld og sent vinnuflokk á svæðið. Hinn leigubílstjórinn fékk aftur á móti þær upplýsingar að Vegagerðin hafi ekki vitað af holunni fyrr en daginn eftir.

Tjón Sigurðar er um 100 þúsund en hinn leigubílstjórinn greiddi um 150 þúsund krónur fyrir viðgerðina. Þá gátu þeir ekki nýtt atvinnutæki sín, leigubifreiðarnar, á meðan þær voru í viðgerð.

Bílarnir slitna helmingi fyrr en venjulega

„Það er skelfilegt að aka um götur höfuðborgarinnar,“ segir Sigurður. Bílstjórarnir aka um daglega og þurfa að sveigja framhjá ótal holum. „Þetta hefur áhrif á allan bílinn, dempara, bremsur og fleira og slitnar bíllinn því helmingi hraðar en venjulega,“ segir hann. Vegirnir séu mun verri en á sama tíma í fyrra og man Sigurður ekki eftir ástandi sem þessu síðustu ár.

Sigurður segist hafa haft samband við Vegagerðarinnar undanfarnar vikur til að láta vita af holum í von um að þær verði lagaðar. Svo virðist sem ekki sé brugðist mjög hratt við og bendir Sigurður á að ef til vill ætti að setja upp merkingar við verstu holurnar ef ekki er hægt að hefja viðgerð þegar í stað.

Hjá bifreiðastöðvunum Hreyfli og BSR fengust þær upplýsingar að eitthvað hefði verið um að leigubílstjórar hefðu lent í tjóni vegna ástandsins á götum höfuðborgarsvæðisins í vetur. Bílstjórarnir eiga sjálfir ökutækin og því er ekki víst að fyrirtækin fái upplýsingar um þau tjón sem bílstjórarnir verða fyrir. 

Fréttir mbl.is um málið: 

Dekk sprungu á sjö bílum í sömu holu

Göt­urn­ar að breyt­ast í mal­ar­vegi

 Slæm­ir veg­ir skemma bíla

Les­end­ur mbl.is eru hvatt­ir til að senda inn mynd­ir af skemmd­um á bíl­um sín­um sem rekja má til slæms ástands vega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka