Ráðamenn borgarinnar ekki axlað ábyrgð

Tvisvar var gert hlé á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gærkvöldi til þess að upplýsa borgarfulltrúa um stöðu mála eftir að 11 ára fötluð stúlka skilaði sér ekki heim til sín eftir að hafa nýtt sér Ferðaþjónustu fatlaðra. Eins og mbl.is fjallaði um í gærkvöldi var stúlkunni ekið að fjölbýlishúsinu sem hún býr í en var hins vegar ekki komið í hendur foreldra sinna. Hún leitaði í kjölfarið skjóls hjá nágranna þar sem hún fannst um klukkustund síðar.

Meðal umræðuefna á fundi borgarstjórnar í gær voru málefni Ferðaþjónustu fatlaðra en umræðan fór fram að frumkvæði borgarfulltrúa sjálfstæðismanna. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, skaut í umræðunni föstum skotum að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og öðrum fulltrúum meirihlutans í borginni og sagði þá síður en svo hafa axlað ábyrgð á því sem farið hefði úrskeiðis í málefnum ferðaþjónustunnar á undanförnum mánuðum.

Kjartan benti á að eftir að alvarlegur þjónustubrestur hafi komið í ljós hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í byrjun ársins eftir skipulagsbreytingar hafi Dagur haldið því fram að unnið væri að því að koma málefnum hennar í lag og að þeirri vinnu miðaði áfram. Þrátt fyrir það hafi áfram komið upp óviðunandi mál hjá Ferðaþjónustu fatlaðra þrátt fyrir að forystumenn meirihlutans hafi sagt að staða mála væri að komast í lag. Meðal annars á fundi borgarstjórnar 20. janúar.

Þá sagði Kjartan að eitt af því sem þyrfti að skoða væri hvort rétt væri að hverfa aftur til fyrra kerfis sem horfið hafi verið frá um áramótin og reyna að fá aftur til starfa reynslumikla starfsmenn sem þá hefðu horfið hefðu á braut vegna breytinganna. Minnti hann ennfremur á ábyrgð Reykjavíkurborgar í þessum efnum sem greiddi 60% af kostnaði vegna Ferðaþjónustu fatlaðra.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert