Rangar og skaðlegar ákvarðanir en ekki lögbrot

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segist ekki hafa fullyrt að lög hafi verið brotin þegar nýju bankarnir voru stofnaðir eftir hrun þeirra gömlu heldur að rangar og skaðlegar ákvarðanir hafi verið teknar. Hann segir enn ástæðu til að rannsaka málið frekar.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi út í afgerandi yfirlýsingar í kjölfar ásakana sem Víglundur Þorsteinsson setti fram á hendur síðustu ríkisstjórnar vegna þess hvernig staðið var að skiptingu eigna og skulda á milli nýju og gömlu bankanna.

Spurði hann út í afstöðu forsætisráðherra í ljósi skýrslu Brynjars Níelssonar þar sem niðurstaðan var sú að engum svikum eða blekkingum hafi verið beitt til hagsbóta fyrir kröfuhafa föllnu bankanna, lög hafi ekki verið brotin og að skuldastaða ríkissjóðs væri verri ef ekki hefði verið fyrir aðgerðirnar.

Ráðherrann svaraði því til að hann væri sammála Brynjari um að ástæða væri til að rannsaka málið frekar. Hann hafi hins vegar ekki fullyrt að lög hafi verið brotin, aðeins að rangar og skaðlegar pólitískar ákvarðanir hafi verið teknar sem hafi miðast af því að koma til móts við erlenda kröfuhafa. Ekki þurfi að líta til gagna sem Víglundur lagði fram um það heldur dygði að líta í skýrslu Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, um endurreisn bankanna.

Skuldarar horfi upp á það að skuldir þeirra hafi verið færðar til nýju bankanna með miklum afslætti án þess að þeir njóti neins ágóða af því. Uppsafnaður hagnaður bankanna væri um 300 milljarðar króna, meðal annars af völdum þessar afsláttar. Framsóknarflokkurinn hafi bent á það á sínum tíma að þarna væru menn að missa af tækifæri og verðmætum sem ætti með réttu að nýta til að koma til móts við skuldara.

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði þá hvernig forsætisráðherra teldi að ætti að rannsaka málið, hvort vísa ætti því til lögreglu eða skipa rannsóknarnefnd um það. Sigmundur Davíð svaraði því til að hann boðaði ekki rannsóknir í stíl við þær rannsóknir sem síðasta ríkisstjórn boðaði um að refsa mönnum fyrir pólitískar ákvarðanir. Hann væri aðeins að tala um að menn lærðu af mistökum svo þeir gætu unnið öðruvísi ef upp kæmu sambærilegar aðstæður síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert