„Þarna er kannski samblanda af samskiptaleysi á milli bílstjórans og þjónustuversins og pappakassahugsunar. Ég verð bara að taka undir það,“ sagði Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem fer fyrir neyðarstjórn vegna Ferðaþjónustu fatlaðra, á opnum fundi stjórnarinnar.
Þar voru mættir margir notendur þjónustunnar og aðstandendur þeirra og lýstu þeir reynslu sinni í þeim efnum og voru þær sögur ekki fallegar. Meðal annars var sagt frá einum notanda sem hefði misst af ferðinni sinni vegna misskilnings en nokkrum mínútum síðar hefði bíllinn komið aftur að sækja tvo aðra notendur í sama stigagangi. Bílstjórinn hefði verið beðinn um að taka hann með í ferðina en hann neitað á þeim forsendum að hann væri ekki skráður í þá ferð. Þarna hefði verið á ferðinni pappakassahugsunarháttur og skortur á sveigjanleika í kerfinu.
„Kerfið á auðvitað að bjóða upp á þennan sveigjanleika og við megum ekki útrýma allri mannlegri hugsun og mannlegri nálgun varðandi þetta verkefni þó við séum að notast við dýrt og fínt tölvukerfi. Það sem allir eru að kalla eftir er þessi persónulega og góða þjónusta sem við svo sannarlega viljum veita,“ sagði Stefán.
Bílstjórarnir væru á sama tíma undir ákveðnum fyrirmælum og þyrftu að reyna að passa upp á að þeir væru á réttum stað á réttum tíma. Annars yrðu þeir skammaðir fyrir að koma of seint. En þá þyrftu samskiptin á milli bílstjóra og þjónustuversins að vera betri þannig að hægt sé að bregðast við því þegar eitthvað raskaðist.