Samfélagsmiðlar auka aðgengi að fíkniefnum

Fíkniefnasalar nota æ frekar Facebook til þess að nálgast viðskiptavini.
Fíkniefnasalar nota æ frekar Facebook til þess að nálgast viðskiptavini. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Aukist hefur síðustu ár að ungmennum sé boðið að kaupa fíkniefni á samfélagsmiðlum eins og Facebook og Snapchat. Nota fíkniefnasalar miðlana til þess að auglýsa efnin og jafnvel til þess að nálgast símanúmer ungmenna til þess að bjóða þeim fíkniefni til sölu. 

Eins og fram kom á mbl.is í gærkvöldi er opinn hópur á Facebook þar sem auglýst er til sölu ýmist kannabis, kókaín, amfetamín og lyfseðilskyld lyf. Er sá hópur líklega aðeins einn af mörgum.

„Við vitum að unglingar eru í auknum mæli að nýta sér svona síður þar sem hægt er að panta fíkniefni,“ segir Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og framkvæmdarstjóri Vímulausrar æsku í samtali við mbl.is aðspurð um síður eins og þessa sem sagt var frá í gær. 

Hrafndís bætir við að fleiri samfélagsmiðlar en Facebook séu notaðir við fíkniefnaviðskipti og nefnir hún í því samhengi miðilinn Snapchat. „Við höfum verið að fá ábendingar frá grunnskólunum og foreldrum um Snapchat en það er æ algengara að sá miðill sé notaður við sölu fíkniefna.“ Segir Hrafndís að samfélagsmiðlar auðveldi aðgengi að fíkniefnum.

„Þetta er það sem að krakkarnir nýta sér í dag. Áður var þetta meira að gerast í gegnum SMS skilaboð en núna er þetta meira á netinu, enda mörg börn og unglingar með snjallsíma.“

Foreldrar þurfa stöðugt að fylgjast með

Hrafndís segir að það geti verið erfitt fyrir foreldra að fylgjast með hvað krakkarnir eru að gera á samfélagsmiðlum. Hvetur hún foreldra til að vera vakandi og fylgjast stöðugt með.

„En svo er alltaf þessi spurning um einkalíf unglinga og hvort foreldrar eigi að vera að fara inn á t.d. Facebook síður þeirra til að fylgjast með. En ef þau eru ekki orðin átján ára geta foreldrar farið þarna inn til að sjá hvað þau eru að gera. Ef þau hafa eitthvað að fela og vilja ekki að foreldrar skoði Facebook samskipti er það oft vísbending um að eitthvað sé í gangi. Með þessum sívaxandi netheimi er auðvelt að missa sjónar á þessu,“ segir Hrafndís.

Það sem fer á netið hverfur aldrei

Að mati Hrafndísar þurfa foreldrar þó að vera meðvitaðir um öll netsamskipti barna sinna, ekki aðeins þegar það kemur að mögulegum fíkniefnaviðskiptum.

„Það sem fer einu sinni á netið hverfur aldrei. Það alltaf hægt að ná í það einhversstaðar. Það var einhver bylgja fyrir nokkrum vikum þar sem krakkarnir voru að senda myndir af kynfærum sínum á Snapchat,“ segir Hrafndís. „Þau halda að þetta hverfi eftir tólf tíma en þannig er það bara ekki. Það er hægt að taka skjáskot og senda áfram. Þau átta sig oft ekki á þessu og hugsa ekki langt fram í tímann. Þú getur verið að sækja um vinnu eftir fimmtán ár og vinnuveitandi getur fundið myndir af þér sem þú hélst að myndu hverfa eftir tólf tíma. Þetta er eins og rafrænt fingrafar.“

Aðspurð hvað skal gera þegar maður verður var við fíkniefnaviðskipti á Facebook er svar Hrafndísar einfalt. „Það á auðvitað að tilkynna það til lögreglu. Svo er það hennar að ákveða hvað sé hægt að gera.“

Lægri þröskuldur með auknu aðgengi

Hrafndís segir að með auknum fíkniefnaviðskiptum á Facebook og öðrum miðlum auðveldist aðgengi að fíkniefnum. „Með auknu aðgengi verður lægri þröskuldur til þess að taka skrefið og prófa. Eins og með kannabis. Núna er til dæmis auðveldara að útvega sér það en áfengi og jafnframt auðveldara að fela fyrir foreldrum. Það er allt önnur birtingarmynd þegar það kemur að vímunni. Við fáum margar hringingar á viku frá foreldrum sem grunar að unglingurinn sé að fikta við kannabis,“ segir Hrafndís og bætir við að málin séu fleiri eftir hrun.

„Mikið framboð er af heimaræktuðu grasi. Það er markaðssett þannig að gras sé bara í lagi og sé ekki fíkniefni. Er þetta oft sett þannig upp að kannabis sé í lagi en hass sé slæmt. Það eru auðvitað ranghugmyndir búnar til af þeim sem eru að selja og vilja að krakkarnir trúi þessu.“

Aðspurð hvort að það sé til að mynda auðveldara fyrir ungling að nálgast gras en vodkapela segir Hrafndís svo vera. „Alveg tvímælalaust. Maður heyrir það á krökkum sem ég hef talað við. Því miður er þetta bara of lítið mál.“

Krakkarnir fá meldingar um ný efni

Magnús Stefánsson, framkvæmdarstjóri Maritafræðslunnar, segist hafa orðið mjög var við að verið sé að bjóða unglingum fíkniefni á Facebook. Segir hann að ýmsir hópar og síður á miðlinum nefna sig eftir efnunum, samt aðeins þannig að þeir sem þekkja til vita um hvað ræðir.

„Síða sem gæti t.d. heitið "Gunni græni” eða eitthvað sambærilegt gæti þá til dæmis verið að selja kannabis. Nöfnin vitna pínulítið í efnið og þeir sem þekkja til vita hvað er í gangi. Svo eru til einkahópar sem hægt er að skrá sig í og þá fá krakkarnir einfaldlega meldingar þegar það kemur nýtt efni á markaðinn,“ segir Magnús.

Magnús segir að samfélagsmiðlar hafi breytt fíkniefnaviðskiptum. „En það er bara sama með alla markaðssetningu. Samfélagsmiðlar hafa breytt öllu og það er allt í andlitinu á manni endalaust og er markaðssetning á fíkniefnum engin undantekning,“ segir Magnús. „Ég hef líka verið í skóla með fræðslu þar sem krakkar sýndu mér SMS sem voru að berast þeim á meðan ég var að tala við krakkana. Þar var bara verið að bjóða bara nýtt íslenskt gras eins og ekkert sé.“

Magnús segir að í tilvikum sem þessum hafa fíkniefnasalar nálgast símanúmer unglinga á Facebook. „Þeir notfæra sér oft tengsl og detta inn á síður unglinga sem eru kannski ekki alveg með lokaða Facebook síðu og finna þar símanúmer og bara senda á þau.“

Freistast frekar með auknu aðgengi

Aðspurður hvort að unglingar freistist frekar í að prófa fíkniefni með aukinni aðgengi segir Magnús að flestar rannsóknir bendi til þess. „Langflestar rannsóknir sýna að meira aðgengi eykur neyslu. Það eru margir á móti áfengissölu í matvöruverslunum einmitt vegna þess.“

En hvað geta foreldrar gert?

„Við megum aldrei gefast upp á að reyna að fylgjast með þróuninni,“ segir Magnús. „Besta forvörnin sem foreldri getur gert er fyrst og fremst að byggja upp sinn ungling þannig að hann þurfi ekki á deyfingu að halda og finnist þetta ekki spennandi heimur. Einnig er mikilvægt að þiggja alla þá fræðslu sem er í boði.“

Hann segir mikilvægt að foreldrar bregðist hratt við gruni þá að börn þeirra séu farin að fikta við fíkniefni. „Oft líður bara einn eða tveir mánuðir þar til neysla er orðin dagleg. Ef unglingar prófa eitthvað og fíla það þarf ekki mikið til. Þetta gerist svo hratt með eiturlyf en með áfengi gerist það oft hægar. Foreldri þekkir það ef unglingur kemur fullur heim.“

Segir hann jafnframt að foreldrar þurfi að vera vakandi fyrir því að allir geti lent í fíkniefnavanda. „Foreldrar mega ekki lifa í þeirri blekkingu að svona komi ekki fyrir sín börn. Það eru ólíklegustu börn að lenda í neyslu í dag.“

Hrafndís Tekla Pétursdóttir, framkvæmdarstjóri Vímulausrar æsku.
Hrafndís Tekla Pétursdóttir, framkvæmdarstjóri Vímulausrar æsku.
Magnús Stefánsson, framkvæmdarstjóri Maritafræðslunnar.
Magnús Stefánsson, framkvæmdarstjóri Maritafræðslunnar. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert