„Það er heilt hnífasett í kúnni“

Fjölmennt var á umferðarþinginu sem haldið var í Norðurljósasal Hörpunnar.
Fjölmennt var á umferðarþinginu sem haldið var í Norðurljósasal Hörpunnar. mbl.is/Kristinn

Á umferðarþingi Samgöngustofu í morgun hélt Guðbjörg Kristín Ludvígsdóttir læknir erindi sem bar nafnið „Búa fatlaðir við sama öryggi og aðrir í umferðinni?“ Guðbjörg starfar sem endurhæfingarlæknir á Landspítalanum Grensási og var ómyrk í máli um aðstæður fatlaðra farþega í umferðinni.

„Því miður er fólki í hjólastólum ekki tryggt nægilegt öryggi í umferðinni. Ég upplifi það stundum þannig að fatlaðir séu hreinlega ekki til á Íslandi. Ég veit hins vegar betur. Staðan er þannig að það vantar bílbelti og tilskilinn útbúnað í mjög marga bíla, bíla sem jafnvel hafa það eina hlutverk að flytja fólk í hjólastólum frá A til B.

Það er fólk í þessum hjólastólum. Um er að ræða foreldra okkar, systkini, börn, vini og vandamenn og við eigum að hugsa um öryggi þeirra. Einstaklingur sem situr í hjólastól getur haft margar ástæður fyrir því að vera bundinn við hann. Oft á tíðum er það vegna lömunar sem þýðir að hann getur ekki stillt sig af í stól eins og þeir sem ekki eru lamaðir,“ segir Guðbjörg og veltir upp einu dæmi um þetta.

Ekki eru allir bílar búnir bílbeltum fyrir farþega í hjólastól …
Ekki eru allir bílar búnir bílbeltum fyrir farþega í hjólastól þrátt fyrir að þjónusta við þá sé þeirra eina hlutverk. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

„Það virðist vera sem öllum sé nákvæmlega sama“

„Ímyndið ykkur að þið séuð farþegi í bíl annars manns. Hann er svolítill glanni, tekur skarpar beygjur og bremsar mikið. Þið eruð þá alltaf að stilla ykkur af og laga ykkur í sætinu eftir aðstæðum hverju sinni. Lamaður einstaklingur getur ekki gert þetta, sem þýðir það að ef bíllinn fer yfir hraðahindrun eða tekur skarpa beygju þá getur viðkomandi dottið úr stólnum. Þetta er að gerast trekk í trekk í trekk, hér á Íslandi. Það virðist vera sem öllum sé alveg nákvæmlega sama. Bílstjórarnir breyta ekki hegðun sinni og þetta heldur bara áfram.

Hjólastólar eru jafn mismunandi og þeir eru margir því þeir eru gerðir til að þjóna þörfum hvers og eins. Bílstjórarnir þurfa þannig að kunna að festa hvern og einn stól á rétta staði. Því miður þarf sífellt að vera að laga hjólastóla eftir að þeir hafa verið festir vitlaust í bíla. Þá hafa sumir hjólastólar ekki bak sem nær lengra en upp á mjóbak. Ímyndið ykkur að vera í slíkum stól, í bíl sem er á fleygiferð. Hversu mikið högg þarf þá til að hafa alvarlegar afleiðingar á bakið? Og þá erum við ekki að tala um lamaðan einstakling, sem hefði ekki möguleika á að bregðast við slíkum aðstæðum.“

Fáar jákvæðar fréttir hafa borist um ferðaþjónustu fatlaðra síðan nýtt …
Fáar jákvæðar fréttir hafa borist um ferðaþjónustu fatlaðra síðan nýtt kerfi var sett á laggirnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landlægur misskilningur um belti í hjólastólum

Guðbjörg segir það vera landlægan misskilning að belti hjólastóla virki einnig sem bílbelti. „Beltin eru til að festa einstaklinginn betur við sjálfan stólinn eða til að hagræða honum svo hann sitji betur í stólnum. Hér á landi halda margir að beltin í hjólastólnum séu bílbelti. Ég vil taka það fram að svo er ekki en þetta viðhorf sést einna best á því að árið 1982 var bílbeltisskylda leidd í lög en það var ekki fyrr en árið 2007 sem það var gert skylt að festa fólk í hjólastól með bílbelti,“ segir Guðbjörg og bendir á að enn skorti nauðsynlega regluverk fyrir flutninga með fólk í hjólastólum.

„Við höfum ekkert sem tryggir það að almennilega sé staðið að þessu og afleiðingarnar eru þær að það er fullt af bílum þarna úti, sem hafa þó þetta eina hlutverk, sem hafa hvorki bílbelti né aðrar veigamiklar öryggisráðstafanir fyrir fólk í hjólastólum. Það virðist bara vera allt í lagi.“

Bílbeltisleysi á ábyrgð farþegans

Hún sagði einnig frá samskiptum sínum við lögreglu um þessi mál, þar sem hún bað um athugun á öllum þeim bílum sem störfuðu við ferðaþjónustu fatlaðra. „Eftir þessa athugun var lögreglan alveg sammála mér um að eitthvað þyrfti að gera í þessum málum. Hins vegar kom í ljós dálítið vandamál en það er að ef lögreglan stöðvar bílinn og gerir athugasemd við bílbeltisleysi farþega í hjólastól, þá er það á ábyrgð farþegans ef hann er 15 ára og eldri,“ segir Guðbjörg og bætir við að þetta hljóti að koma spánskt fyrir sjónir.

„Um er að ræða þjónustu sem snýst um að flytja farþega og á að vera með öll tilskilin réttindi. Það eru ekki bílbelti í bílnum og bílstjórinn firrar sig ábyrgð. Á það þá að lenda á einstaklingnum í hjólastólnum að borga sektina? Þetta er ekki í lagi. En hvar stendur þá hnífurinn í kúnni?“ spurði Guðbjörg gesti umferðarþings.

„Í rauninni er bara heilt hnífasett í kúnni. Í fyrsta lagi er löggjöfin alls ekki nógu góð og það er brýnt að setja almennar reglur sem fjalla bara um flutning fatlaðra í bílum. Í öðru lagi þarf að fylgja því eftir og þá þarf eftirlitið að vera miklu strangara en það er í dag. Það þarf að taka þessa bíla út og sjá til þess að þetta sé í lagi. Bílstjórarnir þurfa einnig að fara á námskeið þar sem þeir læra hvernig á að festa fólkið niður og tryggja öryggi þeirra auk þess að fræðast um hvað felst í fötlun hvers og eins.“

Fullorðinn farþegi, sem bundinn er við hjólastól, ber sjálfur ábyrgð …
Fullorðinn farþegi, sem bundinn er við hjólastól, ber sjálfur ábyrgð á því ef bíl þjónustunnar skortir bílbelti. mbl.is/Kristinn

„Þurfum að tryggja öryggi farþega í óvissuferðum“

Hún beindi einnig tilmælum til fagfólks sem í auknum mæli þyrfti að passa upp á öryggi fólksins í bílunum. „Við þurfum að fræða fólk og segja því hverjar reglurnar eru. Þá eigum við ekki að hika við að segja fólki að hreinlega neita að fara um borð í bíla sem eru ekki með öryggi farþega í lagi. Í stuttu máli eiga allir farþegar í bíl að hafa bílbelti sama þótt sætið þeirra sé á hjólum eða ekki. Þetta er ekki flókið. Við þurfum að taka hausinn úr sandinum.“

Guðbjörg klykkti að lokum út með að huga skyldi að öryggi farþega hjá ferðaþjónustu fatlaðra. „Við þurfum að tryggja öryggi farþega í óvissuferðum en það virðist vera það nýjasta sem ferðaþjónusta fatlaðra býður upp á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert