61 tjón vegna holuaksturs á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu og í akstri innan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hafa komið inn á borð hjá Sjóvá frá áramótum. Í einu tilfelli hefur tjónþola tekist að fá tjónið bætt. Tilfellin eru þó mun fleiri og biðraðir hafa myndast á dekkjaverkstæðum vegna ástandsins.
Að sögn Guðmundar Magnússonar, tryggingarráðgjafa hjá Sjóvá þar sem Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær tryggja, hefur verið úrskurðað um að 36 mál séu óbótaskyld og í 24 málum bíði tjónþolar úrskurðar.
Eins og tölurnar bera með sér getur verið erfitt að fá tjónið bætt því einungis einum tjónþola hefur tekist það en sé fólk ósátt við niðurstöðu í máli sínu segir Guðmundur að hægt sé að skjóta málinu til úrskurðarnefndar. Í henni sitja þrír lögfræðingar fyrir hönd tryggingafélaganna, ríkisins og Neytendasamtakanna en 6000 kr. kostar að fara með málið í þann farveg. Enginn úrskurður hefur fallið á vegum nefndarinnar frá áramótum þegar ástandið tók að versna til muna en Guðmundur á von á því að það gerist innan skamms.
Fram hefur komið að tjónþolar fái ekki tjónið bætt ef veghaldara hafi ekki verið kunnugt um holu sem olli tjóni en Guðmundur segir að án þess að mörkin séu mjög skýr sé gjarnan miðað við að veghaldari hafi 1-1,5 klst. til að bregðast við ástandinu annaðhvort með fyllingu eða með því að setja upp skilti.
Því er brýnt að fólk tilkynni um holur sem það verður vart við annaðhvort á vef viðkomandi sveitarfélags eða á vef Vegagerðarinnar.
Fram hefur komið að ástandið sem nú er á götum höfuðborgarsvæðisins má að töluverðu leyti rekja til sparnaðar á undanförnum árum. Bæði hafa verið notuð endingarminni efni í malbikið en einnig hefur verið gripið til þess ráðs að fylla í holur í stað þess að leggja nýtt slitlag. Aðspurður að því hvort sú staðreynd geti haft áhrif á bótaskyldu segist Guðmundur eiga erfitt með að sjá það.
Biðraðir á dekkjaverkstæðum
Starfsmenn á dekkjaverkstæðum borgarinnar hafa ekki farið varhluta af ástandinu en biðraðir hafa myndast vegna slíkra tjóna bæði hjá Barðanum í Súðarvogi og hjá N1 á Bíldshöfða. Þar hafa verið að koma allt upp í 10 bílar á dag á undanförnum vikum vegna holuaksturs. Hjá MAX1 í Hafnarfirði er sömu sögu að segja þó mest hafi 4-7 bílar verið að koma yfir daginn.
Tjónið er mismikið en dæmi eru um að 3 dekk hafi eyðilagst á sama bílnum vegna holuaksturs, algengt er að dekk kosti á bilinu 25-70 þúsund krónur en verðmiðinn fer eftir gæðum og stærð. Tjónið getur þó hækkað verulega ef skemmdir verða á felgum eða hjólabúnaði sem dæmi eru um þó það sé óalgengara. Einn viðskiptavinur Barðans sat uppi með tjón upp á 180 þúsund krónur og annar viðmælandi mbl.is sér fram á að greiða 200 þúsund krónur úr eigin vasa vegna holuaksturs.
Sprenging í sölu gorma í bíla
Ekki einungis dekk fara illa í holuakstrinum því gormabúnaður í bílum gefur sig líka. Ragnar Matthíasson, framkvæmdastjóri Poulsen ehf., sem er stór söluaðili gorma í bíla segir að frá áramótum hafi orðið sprenging í sölunni. „Gormasala hefur tekið verulegan kipp eftir áramót og þá sérstaklega það sem af er febrúar og er salan frá áramótum eitthvað á þriðja hundrað gorma,“ segir Ragnar. en
Mun algengara er að dekk skemmist einungis í holuakstri og erfiðara er að sanna hvenær nákvæmlega gormur hefur farið.
Mörg dæmi um fjölda tjóna í sömu holunni
Samkvæmt upplýsingum frá arekstur.is sem sinna um 25% af öllum árekstrum á höfuðborgarsvæðinu tilkynna mun færri um slík tjón til fyrirtækisins. Þó hafi starfsmenn fyrirtækisins séð tilfelli þar sem fjöldi tjóna hafi orðið vegna sömu holunnar. Á Álftanesvegi hafi 6 bílar skemmst á sömu holunni yfir helgi, á Suðurlandsvegi við Rauðavatn hafi 5 bílar skemmst með stuttu millibili og á Breiðholtsbraut hafi ein hola ollið tjóni á þremur bílum hið minnsta. Við þetta bætist svo hola á Vesturlandsvegi sem olli tjóni á 7 bílum með stuttu millibili fyrir skömmu.
Þá hefur þess orðið vart að óhöpp verði í umferðinni þegar fólk þarf að bregðast við holum í veginum, ástandið segja starfsmenn arekstur.is aldrei hafa verið jafnslæmt.
Samkvæmt þessum tölum verður að gera ráð fyrir að mikill fjöldi tjóna sem fólk hefur orðið fyrir á síðustu vikum vegna holuaksturs hafi ekki verið tilkynntur.