Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist vongóð um að Alþingi muni samþykkja á þessu þingi tvö þingmál sem muni skjóta styrkari stoðum undir íslenska raforkukerfið.
Um er að ræða annars vegar frumvarp ráðherrans um breytingar á raforkulögum sem hefur það að markmiði að styrkja kerfisáætlun Landsnets. Hins vegar hefur ráðherrann lagt fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda í málefnum loftlína og strengja.
Á aðalfundi Samorku á Grand hótel í dag áréttaði Ragnheiður Elín að óskandi væri að sterkari staða kerfisáætlunarinnar sem og skýrari leiðsögn stjórnvalda í þessum málum mundi styrkja raforkukerfið og tryggja betur afhendingaröryggi raforku. Það hefði verið óviðunandi víða um landið.
Í ályktun aðalfundarins segir að raforkukerfið sé í alvarlegum og sífellt vaxandi vanda vegna hindrana í vegi uppbyggingar og eðlilegs viðhalds á flutningskerfi raforku. Fjöldi fyrirtækja verði fyrir tjóni og uppbygging atvinnulífs víða um land búi við takmarkanir af þessum sökum.
Ragnheiður Elín tók heilshugar undir þessu orð og sagði brýnt að stjórnvöld brygðust við og gripu til aðgerða. Þingmálin tvö, sem vonast er til að verði samþykkt í vor, væru liður í því.
„Það má segja að við þurfum skýrar línur þegar kemur að þessum mikilvægu málum og erum við meðal annars að bregðast við því með þessum þingmálum,“ sagði Ragnheiður Elín.