Þingmenn fengu vetrarfrí

mbl.is/Ómar

Segja má að vetrarfrí hafi verið gefið á Alþingi í gær samhliða vetrarfríi grunnskóla í Reykjavík. Forsætisnefnd þingsins samþykkti í nóvember í fyrra að þingfundur sem átti að fara fram í gær yrði haldinn föstudaginn 27. febrúar. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að með þessu hafi á vissan hátt verið komið til móts við þingmenn sem eiga börn í grunnskóla. 

Í haust komu fram óskir um að tekið yrði tillit til vetrarfría í skólum við skipulagningu þingfunda. Nokkuð er um unga þingmenn á Alþingi sem eiga börn í grunnskólum og vildi forseti Alþingis koma til móts við þessar óskir. Var breytingin gerð að hans frumkvæði og segist Helgi ekki minnast þess að slíkt hafi áður verið gert á Alþingi.

Helgi bendir á að vissulega leysi þetta ekki allan vanda enda eru vetrarfríin ekki á sama tíma hjá öllum sveitarfélögum. Þess má til dæmis geta að vetrarfríi nemenda í grunnskólum Garðabæjar er lokið og nemendur í Hafnarfirði fá frí í lok næstu viku. Nemendur grunnskóla Akureyrar eru í fríi í dag líkt og nemendur í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert