Það var vilji ríkisstjórnar Geirs H. Haarde að veita Kaupþingi 500 milljóna evra lán skömmu fyrir fall bankans 2008 en ekki Seðlabankans. Þetta kemur fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag en Davíð Oddsson, fv. Seðlabankastjóri er annar ritstjóra blaðsins.
Lán Seðlabankans til Kaupþings hefur komið aftur til umræðu eftir að dómur féll í Al Thani-málinu í Hæstarétti á dögunum. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, talaði um að hann væri þeirrar skoðunar að ríkissjóður ætti að kanna hvort að hann ætti bótakröfu á hendur slitabúi Kaupþings þar sem 500 milljóna evra lán sem Seðlabankinn veitti bankanum hafi átt sér stað um sama leyti og brotin í málinu voru framin. Ýmsir hafa meðal annars kallað eftir því að upptaka sem til er af símatali Geirs og Davíðs í aðdraganda lánveitingarinnar verði birt til að upplýsa um forsendur þess.
Reykjavíkurbréfið er ekki skrifað undir nafni en Davíð Oddsson er annar ritstjóra Morgunblaðsins. Þar er aðdraganda lánsins til Kaupþings lýst.
Daginn sem lánið var veitt hafi Seðlabankinn haft samband við danska seðlabankann til að grennslast fyrir um FIH-bankann sem Kaupþing lagði fram sem tryggingu fyrir láninu. Þau svör hafi borist að ekki þyrfti að efast um veðhæfni hans.
Þar sem Kaupþingsmenn hefðu beðið um aðstoð í erlendum gjaldeyri hafi Seðlabankinn ekki vilja taka lokaákvörðun í málinu enda væri stór hluti gjaldeyrisforðans tilkomins vegna skuldabréfasölu íslenska ríkisins. Bankastjórar Seðlabankans hafi því litið svo á að „vilji ríkisstjórnarinnar, en ekki bankans, yrði að ráða niðurstöðunni“.
„Þeir sem báðu um aðstoðina héldu því fram að ríkisstjórnin vildi að þessi fyrirgreiðsla yrði veitt. Þess vegna fór símtalið við forsætisráðherrann fram. Tilviljun réði því að það símtal var hljóðritað. Þess vegna átti fyrirgreiðslan sér að lokum stað gegn allsherjarveði í banka sem talinn var standa mjög ríflega undir því,“ skrifar ritari Reykjavíkurbréfs.
Þar kemur einnig fram að önnur ríkisstjórn hafi séð um veðið og það hafi öllu ráðið um hvernig veðið hafi reynst.
„Þeir, sem flæmdir voru frá S.Í. með pólitísku offorsi af því tagi, sem hafði verið óþekkt í áratugi á Íslandi, fengu engu um það ráðið. Ábyrgðin á því er annarra,“ segir i lok bréfsins.