Vísitala kaupmáttar launa í janúar sló met og hefur hún ekki verið jafnhá síðan hún var tekin upp 1989.
Haukur Eggertsson, sérfræðingur á félagsmálasviði Hagstofu Íslands, segir nýjan kjarasamning lækna og 2% launahækkun hjá grunn- og framhaldsskólakennurum um áramótin eiga þátt í að launavísitalan hækkaði í janúar. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins munu kjarasamningar flugmanna og flugfreyja einnig hafa valdið hækkunum á almennum vinnumarkaði.
Til að fá út vísitölu kaupmáttar launa er launavísitölunni deilt með vísitölu neysluverðs til að leiðrétta fyrir verðlagsþróun. Vísitalan er því mælikvarði á greidd raunlaun, aðra en tilfallandi yfirvinnu, á hverja unna vinnustund.