Búist við stormi og ofsaveðri

Búist er við stormi á landinu í dag og á morgun og ofsaveðri syðst í dag samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Gert er ráð fyrir að meðalvindur á landinu verði yfir 20 metrum á sekúndu og meðalvindur syðst á landinu yfir 28 m/s.

Búast má við hviður við fjöll sunnan- og suðvestanlands geti farið yfir 40 m/s fram eftir degi. Versta veðrið verður sunnanlands og mikill vindstyrkur ásamt snjókomu og skafrenningi þýðir að skyggni verður lítið sem ekkert og ekkert ferðaveður.

Þó úrkomuminna verði í öðrum landshlutum er vindstyrkur þar nægur til að hreyfa lausan snjó sem fyrir er og mynda kóf og tefja ferðalög eða hamla þeim. Á morgun mánudag er útlit fyrir hvassa norðanátt og ekki er útlit fyrir að lægi að gagni á landinu fyrr en á þriðjudag.

Reiknað er með hviðum 30-40 m/s á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli fram yfir hádegi, en síðan fæst betra skjól með hægstæðari vindátt á þeim slóðum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Ofsaveður verður sums staðar við þjóðveginn frá Hvolsvelli og austur fyrir Öræfi meira og minna í allan dag. Það verða staðbundnir mjög snarpir snarpir sviptivindar með ofankomu, skafrenningi og eins sandfoki austur yfir sandana.

Sjá: Veðurvefur mbl.is

Frétt mbl.is: Ofsaveður? Hvað er nú það?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert