„Við höfum kallað út fleiri snjóbíla en hins vegar eru allir vegir lokaðir þannig að það kemst enginn til okkar heldur. Búið er að loka undir Eyjafjöllunum meðal annars. Þannig að við erum alveg tepptir í þessu veðri fram yfir tvö til fjögur,“ segir Svanur Sævar Lárusson, í svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Kona á fertugsaldri sem leitað hefur verið að frá því fyrir miðnætti er enn ófundin. Ekkert hefur spurst til hennar frá því á hádegi á föstudaginn. Hún er vön ferðalögum við erfiðar aðstæður og ætlaði að fara í kringum jökulinn á skíðum. Leit var hætt í morgun vegna veðurs en verið er að bíða eftir að betri skilyrðum til þess að hefja leit á nýjan leik. Leitarsvæðið er norðan Mýrdalsjökuls.
Svanur segir að kallaðir hafi verið út sex snjóbílar að hans sögn. Björgunarsveitarmenn séu að undirbúa sig til þess að vera klárir þegar aðstæður leyfa áframhaldandi leit. „Það er bara kolvitlaust veður á svæðinu og það veður að taka mið af því.“ Hann segir að konan virðist ekki hafa vitað að það stefndi í slæmt veður á svæðinu.
Lögreglan beinir því til þeirra sem kunna að hafa verið á svæðinu á föstudaginn og hafa orðið varir við mannaferðir að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 444-2010.
Sjá veðurvef mbl.is
Frétt mbl.is: „Það er snælduvitlaust veður“
Frétt mbl.is: Konan er enn ófundin
Frétt mbl.is: Leitað að konu við Mýrdalsjökul