„Það er snælduvitlaust veður“

mbl.is/Brynjar Gauti

„Við erum að setjast niður svæðisstjórnin og ætlum að meta stöðuna og hvað við gerum. Það er náttúrlega snælduvitlaust veður ennþá og ekki mikið vit í að senda mannskap inn á svæðið. En hugmyndafræðin núna er að senda snjóbílana þangað enda ekki hægt að senda vélsleða eða jeppa við þessar aðstæður. Það er planið en við erum bara að setjast niður núna.“

Þetta segir Svanur Sævar Lárusson, í svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurlandi, í samtali við mbl.is en björgunarsveitir hafa leitað við Mýrdalsjökul frá því fyrir miðnætti að konu á fertugsaldri sem ekkert hefur spurst til frá því á hádegi á föstudaginn. Hún er vön ferðalögum við erfiðar aðstæður og ætlaði að fara í kringum jökulinn. Leit var hætt í morgun vegna veðurs en verið er að fara yfir stöðuna sem fyrr segir og verður ákvörðun um framhaldið tekin í kjölfarið.

Konan hafði samið við vinkonu sína um að senda henni skilaboð í gegnum svokallað SPOT-tæki á 12 tíma fresti. Tók konan fram að bærust ekki boð í þrjú skipti væri það merki um að hún þyrfti aðstoð. Síðustu skilaboðin bárust frá henni á hádegi á föstudag sem fyrr segir. Svanur segir konuna vera vel útbúna og þekkja vel til á svæðinu enda hafi hún starfað þar sem landvörður. Þá hafi hún starfað sem leiðsögumaður á Svalbarða.

Sjá veðurvef mbl.is

Frétt mbl.is: Konan er enn ófundin

Frétt mbl.is: Leitað að konu við Mýrdalsjökul

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert