Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur 29 ára gömlum karlmanni sem grunaður er um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í íbúð þeirra í Stelkshólum í september. Er hann talinn hafa banað henni með því að þrengja að öndunarvegi hennar.
Ákæran var gefin út þann 2. febrúar en ákveðið var að þinghald yrði lokað. Málið er komið á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem það verður tekið fyrir í lok mars.
Aðfaranótt 28. september fékk lögregla tilkynningu um að 26 ára kona væri látin á heimili sínu í Stelkshólum í Breiðholti. Eiginmaður konunnar, sem er 29 ára gamall, var handtekinn á vettvangi en strax vaknaði grunur um að andlát konunnar hefði borið að með saknæmum hætti. Börn hjónanna, tveggja og fimm ára, voru heima þegar konan lést en talið er að þau hafi verið sofandi.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald en því var fljótlega breytt í öryggisgæslu á réttargeðdeild Landspítalans á Kleppi. Hann hafði fyrir atburðinn glímt við andleg veikindi. Hann er grunaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konu sinnar þannig að bani hlaust af.