„Krabbamein er svo nálægt okkur“

Skálað í kollageni eftir undirritunina í dag. Heiðar Hrafn Eiríksson, …
Skálað í kollageni eftir undirritunina í dag. Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar, Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri framleiðslu og sölumála Þorbjarnar, Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS, Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins, Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Codlands, Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Pétur Pálsson, forstjóri Vísis.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, og Krabbameinsfélag Íslands skrifuðu í dag undir samning til þriggja ára um stuðning SFS við Mottumars/Karlar og Krabbamein,  en það er átaksverkefni Krabbameinsfélagsins til að vekja athygli á krabbameinum hjá körlum. Forstjóri Krabbameinsfélagsins, Ragnheiður Haraldsdóttir telur þennan stuðning mjög mikilvægan og væntir góðs af samstarfinu, ekki síst þar sem sjávarútvegurinn tengist margvíslegum atvinnugreinum í þjóðfélaginu og hefur starfsstöðvar víða um landið.

 „Með þessu samstarfi fáum við ákveðinn stuðning sem gerir kleift að koma skilaboðum Mottumars áleiðis til fleiri heldur en ella,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is eftir undirritunina í dag. „Það er líka mjög mikilvægt fyrir okkur að vera í samvinnu við SFS til þess að ná til þeirra sem starfa í sjávarútvegi.“ Hún segir að undirskriftin í dag sé vissulegt gleðiefni sem fyllir félagið bjartsýni og starfsorku.

Hún segir að áhrif átaksverkefna eins og Mottumars séu alltaf mjög mikil. „Í ár ætlum við aftur að leggja áherslu á ristilkrabbamein og forvarnir gegn því. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma skilaboðum til karla og hvetja þá til að gæta að heilsunni almennt, en sérstaklega þegar það kemur að því að þekkja fyrstu einkenni ristilkrabbameins,“ segir Ragnheiður. „Við erum sátt og glöð en fyrst og fremst þakklát fyrir traustið á fjármagni til þess að koma skilaboðum áleiðis til almennings.“

Baráttan er samtökunum nátengd

Kolbeinn Árnason framkvæmdarstjóri SFS segir það mikilvægt að efla vitund um krabbamein karla. „Við, eins og aðrir, viljum taka þátt í þessu góða starfi Krabbameinsfélagsins. Sjávarútvegurinn hefur í gegnum tíðina verið karlastétt og Mottumars snýst um að berjast gegn krabbameini í körlum. Þetta er þessum samtökum nátengt,“ segir Kolbeinn í samtali við mbl.is.

 „Við viljum vera með í að berjast gegn þessu og efla vitundina um krabbamein karla. Þetta eru karlar á miðjum aldri sem þetta beinist að og það eru að miklu leyti starfsmenn okkar. Heilbrigði þeirra og Íslendinga allra er okkur hugleikinn.“

Skrifað var undir samninginn í Saltfisksetrinu í Grindavík og voru nokkrir starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis, Þorbjarnar, Codland og Haustaks viðstaddir. Staðurinn þykir táknrænn fyrir sjávarútveg á Íslandi í fortíð og framtíð en á Saltfisksetrinu er fortíðarinnar minnst en á efri hæð hússins hefur nýsköpunarfyrirtækið Codland aðsetur.

Krabbamein er persónulegt

Pétur Pálsson, framkvæmdarstjóri Vísis, segir að þessi mál séu persónuleg fyrir hann en móðir hans glímdi við krabbamein og svo lést faðir hans fyrr í mánuðinum úr sama sjúkdómi. Hefur fjölskyldan í Vísi látið sig málefni Krabbameinsfélagsins miklu varða í gegnum tíðina og stutt starfsemina dyggilega.

„Okkur þykir ótrúlega vænt um að taka þátt. Krabbamein er svo nálægt okkur. Þetta er persónulegt og það er fullt af starfsfólki okkar sem tengist þessu,” segir Pétur. Átak eins og Mottumars virkar mjög vel. Hægt verður setja upp keppnir á milli áhafna, landshluta og fyrirtækja og ég er sannfærður um það að sjávarútvegurinn í heild sinni muni taka þessari áskorun að miklum krafti.”

Meginmarkmiðið með Mottumars er að hvetja karlmenn til að þekkja einkenni krabbameina og stuðla að breytingum á lífsháttum til að draga úr líkum á að fá krabbamein. Einnig er markmiðið að kynna fyrir karlmönnum þá þjónustu sem stendur til boða og hvetja þá til að hika ekki við að leita til læknis.

Í tilkynningu kemur fram að ár hvert greinast um 750 íslenskir karlar með krabbamein. Í marsmánuði er lögð áhersla á að hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, til dæmis með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð. Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist, því meiri líkur eru á lækningu.

Kolbeinn Árnason og Ragnheiður Haraldsdóttir við undirritunina í dag.
Kolbeinn Árnason og Ragnheiður Haraldsdóttir við undirritunina í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert