Kunna að grípa til ofbeldis

Annar mannanna segist vilja berjast með íslamska ríkinu.
Annar mannanna segist vilja berjast með íslamska ríkinu. AFP

Hælisleitendurnir tveir sem fjallað hefur verið um í kvöld vegna þeirrar ákvörðunar dómstóla að hafna kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald óskuðu eftir hæli hér á landi 21. janúar síðastliðinn. Í kjölfarið var þeim komið fyrir í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. febrúar sl. kemur ýmislegt fram um dvöl mannanna á Íslandi. Þar segir að þeir hafi komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík og greint frá því að þeir væru bræður. Hafi þeir skírt frá því að þeir hefðu engin skilríki undir höndum, aldrei átt slíkt og ekki hafa notast við skilríki á ferðalagi sínu.

Ekki kemur fram hvaða þeir komu en samkvæmt upplýsingum mbl.is flugu þeir hingað til lands 20. janúar frá einhverju Norðurlandanna.

Samkvæmt greinargerð lögreglustjóra mun verkefnastjóri í málefnum hælisleitenda hafa upplýst að annar mannanna hafi fljótlega farið að sýna af sér sjálfsskaðandi hegðun. Hafi hann m.a. brennt gat á rúmið sitt og þá sagst vera að að reyna að kveikja í sér. Hafi hann þá verið fluttur á annað heimili á vegum barnaverndar Reykjavíkur þar sem hann hafi einnig sýnt af sér ógnandi hegðun, barið í veggi og stiga og hótað starfsfólki heimilisins með því að taka niður nöfn þeirra og segjast ætla að refsa þeim. Þá hafi hann einnig skemmt bíl starfsmanns.

Hegðun hans muni hafa versnað til muna kvöldið áður en hann hafi átt að fara í aldursgreiningu hjá tannlækni en hjá lögreglu sagðist hann vera 17 ára. Hann hafi svo verið fluttur á þriðja heimili þar sem hann hafi sýnt af sér ógnandi framkomu við starfsmann barnaverndar sem hafi vitjað hans. Hafi í kjölfarið verið ákveðið að ekki yrði sendur barnaverndarfulltrúi til hans nema í lögreglufylgd.

Þekktir undir öðrum nöfnum

Fram kemur í greinargerðinni að lögregla hafi fengið heimild barnaverndar til þess að spegla tölvu í eigu barnaverndar sem maðurinn notaði meðan hann var vistaður hjá þeim og sé ljóst af þeirri skoðun að hann hafi verið að skoða mikið af efni sem tengist hryðjuverkasamtökum eins og Íslamska ríkinu og Boko Haram, m.a. þar sem sjá megi aftökur á fólki.

Frétt mbl.is: Hælisleitandi fylgjandi IS

Þann 16. febrúar sl. hafi lögreglu borist beiðni um að vera til taks þegar tilkynna hafi átt manninum niðurstöðu aldursgreiningar tannlæknis. Hafi lögreglumenn verið viðstaddir er honum hafi verið kynnt niðurstaða matsins en skv. henni sé hann eldri en 18 ára.

Samkvæmt upplýsingum frá Interpol og lögreglu eins Norðurlandanna eru maðurinn og mögulegur bróðir hans þekktir undir öðrum nöfnum, fæðingardögum og árum, meðal annars segir að þeir séu fæddir 1994 og 1996. „Á það er bent að kærði og samferðarmaður hans séu eftirlýstir innan [...] þar sem brottvísa eigi þeim til [...] á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Báðir séu þeir eftirlýstir í [...] þar sem þeir hafi ekki sinnt boðunum vegna hælisumsókna sinna.“

Lögreglustjóri telur þá hættulega

Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að hann telji í ljósi þess sem að framan greini að kærði ásamt samferðarmanni hans séu undir rökstuddum grun um að gefa rangar upplýsingar hjá yfirvöldum um hverjir þeir eru, en þeir hafi gefið upp mismunandi nöfn og aldur milli landa. Ekki sé vitað hver séu raunveruleg nöfn, þjóðerni og aldur þeirra, eða hvort þeir séu bræður í raun og veru. Þá sé ljóst að þeir hafi verið í miklu ójafnvægi síðan þeir komu til landsins og sé það mat lögreglu að þeir hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af þeim stafi hætta og að talin sé hætta á því að þeir kunni að grípa til ofbeldis gangi þeir lausir.

Frétt mbl.is: Óheppilegt að þeir gangi lausir

Er það jafnframt mat lögreglustjóra að ætla megi að þeir muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan yfirvöldum og lögmætum ráðstöfunum, svo sem flutningi frá landinu. Þá sé það enn fremur mat lögreglustjóra að aðgerðir og athafnir kærðu eftir að þeir komu til landsins séu þess eðlis að af þeim stafi hætta og óöryggi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert