Verða framseldir á næstu dögum

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hælisleitendurnir tveir sem Hæstiréttur hafnaði að úrskurða í gæsluvarðhald verða framseldir til Danmerkur á næstu dögum, að sögn Jóns H.B. Snorrasonar, aðstoðarlögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Þangað til telur lögreglan sig geta haft nauðsynlegt eftirlit með þeim.

Hæstiréttur hafnaði gæsluvarðhaldskröfu lögreglu yfir tveimur hælisleitendum sem hún taldi hættu steðja af. Annar þeirra hótaði meðal annars ofbeldisverkum og lýsti aðdáun á öfgasamtökunum Íslamska ríkinu. Gæsluvarðhaldskröfunni var hafnað þar sem lögreglan hafði ekki látið reyna á vægari aðgerðir áður eins og að gera mönnunum að halda sig á afmörkuðu svæði eins og heimild er til samkvæmt útlendingalögum.

„Við teljum að við séum búin að gera viðeigandi ráðstafanir til að við getum haft eðlilegt og nauðsynlegt eftirlit með þessum mönnum. Við höfum fulla yfirsýn það hvar þeir eru og hvað þeir eru að fást við án þess að þeir séu sviptir frelsi sínu,“ segir Jón.

Þeir eru núna í húsnæði og fæði á vegum íslenskra yfirvalda en Jón vill ekki tjá sig um hvar á landinu þeir séu. Þeir eru báðir með hælisumsókn í Danmörku. Samkvæmt Dyflinnarsamningum ber að framselja menn til þess lands sem þeir leggja fram hælisumsókn í ef þeir ferðast þaðan.

„Þeir verða framseldir til Danmerkur og fluttir þangað á grundvelli Dyflinnarsamningsins. Það verður vonandi sem allra fyrst. Það eru dagar frekar en vikur,“ segir aðstoðarlögreglustjóri.

Framsalið gerist í samstarfi við dönsk yfirvöld en lögreglan mun sjá um að flytja þá til Danmerkur þegar dönsk yfirvöld eru tilbúin að taka við mönnunum. Lögreglan hefur upplýsingar um mennina frá Norðurlöndunum en þar hafa þeir gefið misvísandi upplýsingar um sjálfa sig. Enn liggur ekki fyrir með óyggjandi hætti hverjir mennirnir eru, hvaðan þeir koma og hversu gamlir þeir eru.

Ekki verður farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum að nýju nema að þeir geri eitthvað af sér áður en hægt verður að framselja þá.

Fyrri fréttir mbl.is:

Gert að halda sig á afmörkuðu svæði

Kunna að grípa til ofbeldis

Óheppilegt að þeir gangi lausir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert