Alls hefur 71 einstaklingur þurft að flýja heimili sín í dag vegna snjóflóða á Vestfjörðum. Á Patreksfirði hafa 23 hús verið rýmd með 63 einstaklingum og á Tálknafirði voru tvö hús með átta einstaklingum rýmd.
Davíð Rúnar Gunnarsson, formaður svæðisstjórnar á Patreksfirði, segir marga hafa farið til ættingja og vina en að hátt í 40 manns gisti á Fosshóteli Patreksfjarðar í nótt. Hann segir flóðið sem féll í dag hafa fallið í þekktan flóðafarveg þar sem ekki eru hús, en eins og greint hefur verið frá tók flóðið með sér bíl. „Bíllinn fór nokkra metra inn í garð, en við höfum ekkert náð að skoða hann eða flóðið frekar.“
„Fólk mun ekki geta farið heim í kvöld. Þegar birtir á morgun verðum við að athuga hvort við getum séð eitthvað upp í fjall, gengið og tekið gryfjur til að meta hættuna,“ segir Davíð sem kveður ekki unnt að segja til um hvenær fólk geti snúið aftur til heimila sinna.
Davíð segir rýminguna hafa gengið afar vel fyrir sig. Lögregla hringdi í þau hús sem þurfti að rýma og var fólki í sjálfvald sett hvert það færi. Þurfi fólk aðstoð kemur lögregla eða björgunarsveitir og eins er fólki hjálpað með húsaskjól sé þörf á slíku. Þeir sem yfirgefa heimili sín láta lögreglu svo vita hvar þeir hyggjast halda fyrir svo hægt sé að henda reiður á mannskapnum.
„Fyrri rýmingin tók ekki nema klukkutíma og sú seinni einn og hálfan. Menn reyndu að gera þetta fumlaust og örugglega,“ segir Davíð. Aðspurður um hvort fólk sé óttaslegið segir hann að íbúar taki rýmingunni með jafnaðargeði.
„Ég held að fólk taki þessu bara sem hluta af lífinu. Maður býr hérna og veit að þetta er það sem vofir yfir þessari byggð og er ekkert öðruvísi en hver önnur hætta.“
Á heimasíðu Veðurstofu Íslands kemur fram að mikil hætta sé snjóflóðum á Norðanverðum Vestfjörðum í kvöld og hefur óvissustigi verið lýst yfir á Sunnanverðum Vestfjörðum. Spáð er austan ofsaveðri með úrkomu í kvöld sem snýst í NA og N storm í nótt og fyrramálið með töluverðri snjókomu. Ef veðurspá gengur eftir má búast við náttúrulegum snjóflóðum og eftir að veður gengur niður gæti verið óstöðugleiki í snjónum sem er varasamur fyrir ferðamenn til fjalla.
Töluverð hætta er talin á snjóflóðum á Austfjörðum og nokkur hætta á utanverðum Tröllaskaga. Frekari upplýsingar má finna á vef veðurstofu Íslands.