Stjórn Persónuverndar hyggst afgreiða athugun stofnunarinnar á samskiptum Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, og Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, við upphaf lekamálsins, á fundi sínum síðdegis í dag.
Kjarninn greindi frá þessu í gær, en Björg Thorarensen, stjórnarformaður Persónuverndar, staðfesti þetta í samtali við mbl.is í dag. Hún vildi ekki tjá sig um innihald málsins, en sagði stjórnina stefna að því að senda Sigríði Björk og Gísla Frey niðurstöðuna eftir fund stjórnarinnar í dag.
Niðurstaða Persónuverndar er endanleg, en búast má við að hún verði birt á vefsíðu stofnunarinnar síðdegis á mánudag. Þetta er gert til að tryggja að niðurstaðan berist málsaðilum áður en hún verður birt opinberlega.
Kjarninn greindi frá því í janúar, að tölvupóstur sem Sigríður Björk sagðist hafa sent Gísla Frey þann 20. nóvember árið 2013 með greinargerð um hælisleitandann Tony Omos, hefði hvorki fundist í innanríkisráðuneytinu né hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Í frétt Kjarnans kom fram, að þetta hefði komið fram í svörum ráðuneytisins og lögreglustjóraembættisins við fyrirspurn Persónuverndar, sem hefði óskað eftir að fá umræddan tölvupóst afhentan.
Sigríður Björk sendi fjölmiðlum í kjölfarið yfirlýsingu vegna málsins:
„Tölvupóstur með greinargerð sem þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum sendi þáverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra 20. nóvember 2013, er vistaður á póstþjóni lögreglunnar. Tölvupósturinn verður meðal þeirra gagna sem undirrituð afhendir Persónuvernd eigi síðar en nk. föstudag, 30. janúar.
Fréttir þess efnist að umræddur tölvupóstur finnist ekki, eiga því ekki við rök að styðjast.“