Vegurinn undir Eyjafjöllum lokaður

Svona er umhorfs við Reynisfjall við Vík í Mýrdal, séð …
Svona er umhorfs við Reynisfjall við Vík í Mýrdal, séð úr vefmyndavél Vegagerðarinnar. mynd/Vegagerðin

Þjóðvegurinn undir Eyjafjöllum er lokaður að sögn Vegagerðarinnar. Vetrarfærð er um allt land. Skil óveðurslægðarinnar í suðvestri fara yfir landið í dag og með þeim hvessir og með hríðarveðri um nánast allt land.

Suðvestanlands er vaxandi vindur og versnandi skyggni einkum á fjallvegunum, en á láglendi blotar um og fyrir hádegi og skyggni batnar þá. Hríðarveður hins vegar meira og minna til kvölds á Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði. Hviður 30-40 m/s á Kjalarnesi og með morgninum einnig undir Hafnarfjalli.

Austur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal hvessti mjög skömmu fyrir hádegi og þar verða hviðurnar allt að 40-50 m/s síðar í dag sem og í Öræfasveitinni þar sem einnig má gera ráð fyrir sandfoki. Sérstök athygli er vakin á því að á Reykjanesbrautinni er reiknað með mjög hvössum hliðarvindi, á milli kl. 14 og 17 að telja. Veðurhæð þá 22-25 m/s og allt að 35 m/s í hviðum.

Færð og aðstæður

Það er snjóþekja og skafrenningur í Þrengslum, þæfingur og skafrenningur er á Hellisheiði en þungfært og skafrenningur á Sandskeiði og á Mosfellsheiði. Snjóþekja og einhver ofankoma víðast á Suður- og Suðvesturlandi. Hálkublettir og óveður er á Kjalarnesi. Hvassviðri er einnig við Akrafjall sem og á Reykjanesbraut og Suðurnesjum. Hvassviðri er með Suðurströndinni og er þjóðvegurinn lokaður undir Eyjafjöllum. Hálkublettir og óveður er í Hvalfirði.

Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir. Hvassviðri er við Hafnarfjall en Ófært og stórhríð er á Fróðárheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Bröttubrekku en hálkublettir og óveður á Holtavörðuheiði.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum og sumstaðar éljar og skefur á fjallvegum. Ófært er á Kleifaheiði, Hálfdán og Mikladal og lokað er um Raknadalshlíð. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Gemlufalsheiði og Klettshálsi.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja og víða skafrenningur og óveður. Hvassviðri er á Vatnsskarði. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og skafrenningur og stórhríð mjög víða á Norðausturlandi. Búið er að loka Víkurskarði en ófært og stórhríð er á Hólasandi, þæfingur og skafrenningur er á Hófaskarði og Hálsum.

Hálka og snjóþekja er á Austurlandi. Ófært er á Fjarðarheiði og Vatnskarði eystra. Hálka er á Oddskarði en hálka og skafrenningur á Fagradal. Hálka og hálkublettir eru með suðausturströndinni og þjóðvegur 1 er lokaður í Öræfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert