Lokað hefur verið á umferð um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu. Vegurinn verður því lokaður í nótt en samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni verður ástandið metið á ný í fyrramálið.
Um leið og veður fer versnandi til kvölds um landið norðan- og austanvert, eru horfur á að skil lægðarinnar fari yfir suðvestanlands á milli kl. 17 og 19. Strax í kjölfarið lægir mikið og styttir upp að mestu. Lægir einnig norðantil upp úr miðnætti, Á Vestfjörðum rofar til um tíma í nótt, en gengur í NNA 20-28 m/s snemma í fyrramálið með stórhríð og mikilli snjókomu.
Hálka er á Sandskeiði, snjóþekja og snjókoma er á Hellisheiði en hálkublettir í Þrengslum. Snjóþekja og hálkublettir eru víða á Suðurlandi og eitthvað um éljagang. Ófært er á Fróðárheiði. Hálka, hálkublettir og snjóþekja er viða á Vesturlandi og snjókoma í Borgarfirðinum.
Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum og sumstaðar éljar. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði, Kleifaheiði, Klettshálsi, Hálfdán og Mikladal og lokað er um Raknadalshlíð. Þungfært og stórhríð er á Þröskuldum, Gemlufallsheiði, Hjallahálsi og í Reykhólasveit.
Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir mjög víða og óveður. Hálka og skafrenningur er á Þverárfjalli. Ófært og stórhríð er á Öxnadalsheiði.
Á Norðausturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja og víða skafrenningur eða stórhríð. Ófært og stórhríð er í Víkurskarði, á Hólasandi og á Mývatnsöræfum eins á Hófaskarði og Hálsum.
Hálka og snjóþekja er á Austurlandi. Ófært og stórhríð er á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði, Oddsskarði og Vatnskarði eystra. Þæfingur og skafrenningur er á Fagradal.
Snjóþekja og hálkublettir eru með suðausturströndinni og eitthvað um éljagang.