Frá handtöku til brottreksturs

Handtakan á Laugaveginum.
Handtakan á Laugaveginum.

Lögreglumaðurinn sem hættir formlega störfum hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið við störf frá 8. júlí 2013. Mæltist ríkislögreglustjóri þá til þess að hann yrði leystur undan vinnuskyldu, í kjölfar þess að myndband af handtöku fór um internetið sem eldur um sinu.

Málið kom upp að kvöldi sunnudagsins 7. júlí 2013 þegar myndband af handtöku í miðborg Reykjavíkur var sett inn á samfélagsvefinn Facebook. Á myndbandinu mátti sjá lögreglumann handtaka konu og þótti mörgum sem hann hefði beitt konuna harðræði.

Fjölmiðlar gripu myndbandið á lofti á mánudagsmorgun og í kjölfar umfjöllunar þeirra vísaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu málinu til ríkissaksóknara til rannsóknar. umboðsmaður Alþingis óskaði eftir gögnum um handtökuna og ríkislögreglustjóri mæltist til þess að maðurinn yrði leystur undan vinnuskyldu. Allt þetta gerðist fyrir hádegi umræddan mánudag.

Voru bæði ákærð af ríkissaksóknara

Eftir þetta varð umræðan um handtökuna hávær. Formaður Landssambands lögreglumanna sagði umræðuna óvægna og illa ígrundaða. Hann sagði lögreglumanninn hafa beitt viðurkenndri handtökuaðferð en tók fram að handtaka geti sjaldnast litið vel út á myndbandi. Auk þess hefði konan hrækt framan í lögreglumanninn áður en hún var handtekin.

Í lok ágústmánaðar 2013 ákærði ríkissaksóknari lögreglumanninn fyrir líkamsárás og brot í starfi. Í byrjun septembermánaðar gaf svo ríkissaksóknari út ákæru á hendur konunni fyrir að hrækja á lögreglumanninn í umrætt sinn.

Lögreglumaðurinn neitaði í lok september sama ár sök og í byrjun október var konan dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir hrákann.

Áttatíu sekúndna atburðarrás

Fyrir héraðsdómi var tekist á um það hversu langt lögreglumaður má ganga í valdbeitingu gagnvart ofurölvi konu sem hlýðir ekki ítrekuðum fyrirmælum um að færa sig og hrækir svo framan í hann.

Sjálfur sagði lögreglumaðurinn að það sé undir lögreglumönnum sjálfum að meta aðstæður hverju sinni og þarna hafi hann metið aðstæður þannig að hann gæti ekki tekið áhættuna á því að beita vægari úrræðum. Þetta hefði verið vægasta úrræðið í þessum aðstæðum og með þessu lögreglutaki hefði hann gert það sem var öruggast fyrir þau bæði.

Saksóknari vísaði meðal annars til þess að áttatíu sekúndur liðu frá því að lögreglubíllinn kom að konunni þar sem hún sat á götunni og þar til hún var færð inn í lögreglubílinn í tökum. „Ákærði lét ekki á það reyna hvort hún myndi sýna mótþróa við handtöku heldur stekkur hann út úr bílnum eftir að hann fær hrákann í andlitið og beitir strax þessari harkalegu aðferð,“ sagði saksóknari.

Hæstiréttur þyngdi dóminn

Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi lögreglumanninn þann 6. desember 2013 og sagði í dómnum að lögreglumanninum hafi mátt vera ljóst að konan myndi ekki veita mikla mótspyrnu sökum ölvunar. Þess vegna hafi ekki verið nauðsynlegt að beita umræddri handtökuaðferð, jafnvel þótt hún væri viðurkennd og kennd í lögregluskólanum.

Landssambandið hvatti til þess að málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar og fékk lögreglumaðurinn áfrýjunarleyfi frá réttinum. Málið flutt í byrjun desember síðastliðins og 11. desember sl. þyngdi Hæstiréttur refsingu lögreglumannsins úr 300 þúsund króna sektargreiðslu í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.

Voru því bæði konan sem hrækti framan í lögreglumanninn og lögreglumaðurinn sem handtók konuna fyrir hrákann dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.

Starfskrafta lögreglumannsins ekki óskað

Síðasti þáttur málsins sneri að því hvort lögreglumaðurinn fengið að halda áfram störfum hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að hafa verið dæmdur fyrir líkamsárás og brot í starfi.

Úr þeim þætti var skorið í gær þegar lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti lögreglumanninum að starfskrafta hans væri ekki óskað í framtíðinni. Verður honum vikið frá störfum frá og með næstu mánaðamótum.

Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert