Kolvitlaust veður fyrir vestan

Vindspáin eins og staðan er í dag
Vindspáin eins og staðan er í dag Veðurstofa Íslands

Það er kolvitlaust veður fyrir vestan og að sögn varðstjóra í lögreglunni á Ísafirði er ekki hundi út sigandi. Vegagerðin lokaði leiðinni um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð í gærkvöldi og verða þær leiðir ekki opnaðar á næstunni. Snjóflóðaviðvaranir eru enn í gildi á Vestfjörðum og verður staðan metin um sjö.

Ekki verður hægt að opna leiðina til Súðavíkur, Flateyrar, Þingeyrar og Súgandafjarðar á næstunni vegna roks en staðan verður könnuð þegar líður á morguninn. Ekkert er hins vegar að færð um Eyrarhlíð, að sögn Gylfa Þórs Gíslasonar, lögreglumanns á Ísafirði.

Öxnadalsheiði þungfær

Það er hálka á Sandskeiði og á Hellisheiði en snjóþekja og þoka  í Þrengslum. Snjóþekja er á Suðurlandi og óveður er á Mýrdalssandi. Þungfært er á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

Ófært er á Fróðárheiði. Hálka er á Vesturlandi en snjóþekja er á Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er ófært og stórhríð á öllum fjallvegum og til Flateyrar og Suðureyrar. Súðavíkurhlíð er lokuð. Þungfært er í Reykhólasveit og í Ísafjarðardjúpi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á Norðurlandi vestra er hálka og snjóþekja en þungfært er á Öxnadalsheiði.

Á Norðausturlandi er hálka og snjóþekja. Ófært er á Mývatnsöræfum, Hólasandi, Hófaskarði og Hálsum.

Hálka og snjóþekja er á Austurlandi. Ófært er á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra en hálka er á Fagradal og þæfingur á  Oddsskarði

Snjóþekja er frá Fáskrúðsfirði og með suðausturströndinni.

Ekki útlit fyrir storm næstu sex daga

Enn er mjög hvasst í Ísafjarðardjúpi og hluta Vestfjarðanna og eins snjóar þar enn. Rokið færist síðan yfir landið í dag og verður hvasst nánast um allt land þegar líður á daginn, að sögn Teits Arasonar, vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofunni. Góðu fréttirnar eru þær að ekki er útlit fyrir storm á landinu næstu sex daga, eða eins langt og spáin nær.

Teitur segir að ekki sé eins hvasst á austanverðum Vestfjarðakjálkanum og annars staðar á þessum slóðum og þetta sé í takt við spá dagsins.

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir á sunnanverðum Vestfjörðum í gær. Reitir 4, 10 og hluti af reit 5 á Patreksfirði hafa verið rýmdir. Einnig reitur 9 á Tálknafirði. Snjóflóð hafa fallið á Raknadalshlíð í Patreksfirði og ofan bæjarins.

Það er éljagangur á Suðurlandi og Suðausturlandi þrátt fyrir sunnanátt en norðvestan rok á Vestfjörðum með snjókomu.

Lægðin sem olli óveðrinu í gær er yfir landinu nú og þess vegna er tvíátta og mikið rok fyrir vestan en nánast logn yfir höfuðborgarsvæðinu. 

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðaustan 20-28 m/s og snjókoma á Vestfjörðum, annars yfirleitt mun hægari vindur og él. Norðan 18-25 um landið V-vert eftir hádegi, en norðvestan 15-23 m/s víða um land í kvöld og þá snjókoma eða él N-til, en þurrt syðra. Hiti kringum frostmark.

„Það er lang hvassast á Vestfjörðum en þegar líður á daginn dreifir vindstrengurinn úr sér yfir allt landið og þá minnkar mesti vindhraðinn,“ segir Teitur.

Að sögn Teits fer að lægja í nótt á landinu öllu og ágætis spá er fyrir morgundaginn um allt land.

Á föstudag:
Norðvestlæg átt, 8-15 m/s og snjókoma um landið norðanvert en bjartviðri syðra. Snýst í norðaustan 10-15 NV-til um kvöldið en dregur úr vindi og ofankomu NA-til. Frost 0 til 12 stig, minnst syðst.

Á laugardag:
Norðaustan 8-15 og snjókoma eða él NV-til annars mun hægari breytileg átt og stöku él. Snýst í suðaustlæga átt og fer að snjóa með suðurströndinni um kvöldið. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:
Austlæg átt, 5-13 m/s, hvassast NV-til. Skýjað með köflum og lítilsháttar él NA-til en líkur á snjókomu S- og SV-lands. Fremur kalt í veðri.

Á mánudag og þriðjudag:
Austlæg átt og víða éljagangur, síst þó V-lands. Áfram kalt í veðri.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með rigningu SV-til og hlýnandi veðri en lengst af þurrt og bjart NA-til.
Spá gerð: 25.02.2015 20:55. Gildir til: 04.03.2015 12:00.

það hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu í nótt og fryst.
það hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu í nótt og fryst. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Það er ekki góð færð í húsagötum á höfuðborgarsvæðinu þar …
Það er ekki góð færð í húsagötum á höfuðborgarsvæðinu þar sem það hefur fryst og snjóað í nótt mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert