Ákveðið hefur verið að lýsa yfir óvissustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Enn er snjóflóðahætta á sunnanverðum Vestfjörðum með óvissustigi. Hættustig er enn á Patreksfirði og Tálknafirði, samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Bílstjóra sem sat fastur frá því fyrir níu í gærmorgun á Kleifaheiði var bjargað niður af heiðinni í nótt, að sögn lögreglu, en óttast var að hann væri að verða olíulaus.
Á Vestfjörðum er ófært á flestum fjallvegum og til Flateyrar og Suðureyrar. Súðavíkurhlíð er lokuð. Þungfært er í Ísafjarðardjúpi og á Þröskuldum.
Samkvæmt upplýsingum frá Vesturbyggð verður rýming áfram í gildi á Patreksfirði og Tálknafirði og meiri líkur en minni á að henni verði ekki aflétt í dag. Frekari ákvarðanir verða teknar fyrir kvöldið.
Skólahald á Patreksfirði, Bíldudal og Barðaströnd fellur niður í dag vegna veðurs en þetta á bæði við um leik-, grunn- og tónlistarskóla.
Veðurstofan Íslands ákvað síðdegis í gær að framlengja hættustig á áður rýmdum svæðum á Patreksfirði og rýma tíu hús til viðbótar við þau þrettán sem rýmd voru strax eftir hádegið í gær. Einnig var ákveðið að rýma tvö hús á Tálknafirði. Á Patreksfirði þurftu 63 íbúar að yfirgefa heimili sín og átta íbúar á Tálknafirði eða alls 71 íbúi.
Margir sem þurftu að rýma hús sín fengu inni hjá vinum og ættingjum en rúmlega 40 manns fengu inni á Fosshóteli á Patreksfirði í nótt.
Snjóflóð féll á Patreksfirði um klukkan 13.00 í gær. Það var um 70 metra breitt og kom niður á þekktu snjóflóðasvæði á milli Urðargötu og Mýra. Engan sakaði en flóðið hreif með sér mannlausan bíl og færði hann nokkra metra, að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar, formanns svæðisstjórnar björgunarsveitanna á Patreksfirði. Svæðinu var lokað enda ekki vitað hvort hætta væri á öðru flóði þar eð ekkert sást upp í fjallið í gærdag.
Þegar skyggni batnaði í gærkvöld fór Davíð, ásamt lögreglu og snjóflóðaeftirlitsmanni í vettvangsskoðun. Þá sást að snjóflóðið hafði náð aðeins lengra en talið var fyrr í gær. Einnig sáust 2-3 litlar spýjur sem höfðu komið í farvegi stóra snjóflóðsins. Þá féll snjóflóð fyrir hádegi í gær á Raknadalshlíð innst í Patreksfirði, utan þéttbýlis, fyrir hádegið í gær og náði það a.m.k. að vegi, samkvæmt tilkynningu á síðu Veðurstofu Íslands. Líklegt þykir að enn fleiri flóð hafi fallið á hlíðinni í óveðrinu síðar í gær og niður á þjóðveginn.