Ófrískar konur á Vestfjörðum hafa ekki komist í ómskoðun á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði síðan í nóvember. Ástæðan er sú að ljósmóðir sem venjulega hefur komið þangað tvisvar sinnum í mánuði til að ómskoða barnshafandi konur hefur ekki komist vegna veðurs.
Ljósmóðirin, Ásthildur Gestsdóttir, sem eitt sinn starfaði á Heilbrigðisstofnuninni á Ísafirði, en starfar nú á Akranesi, segir ástandið afar bagalegt fyrir barnshafandi konur, sem hafa þurft að fljúga suður til að fara í ómskoðanir.
„Þessi vetur er búinn að vera einstaklega erfiður, og á mínum dögum þegar ég hef ætlað að fara hefur ekki verið flogið vegna veðurs. Ég reyndi þrisvar í janúar og er búin að reyna tvisvar í febrúar. Ég ætlaði að fara á morgun [í dag] en það lítur ekki vel út,“ segir Ásthildur, sem hefur venjulega nýtt frídagana sína til að fljúga vestur. Þar sem hún er í fullri vinnu á Akranesi segir hún erfitt að breyta þessum dögum.
Í byrjun febrúar áttu fimm konur bókaða 20 vikna sónarskoðun, en alls voru 17 konur bókaðar í tíma hjá Ásthildi. „Það var ömurlegt að þurfa að afboða þessar konur. Þær voru bæði að koma í 20 vikna sónar, snemmsónar og vaxtasónar en það voru aðallega þessar í 20 vikna sónarnum sem þurftu að fljúga suður. Þær voru búnar að bíða síðan í byrjun janúar og þetta gerði alveg útslagið. Það var ekki hægt að láta þær bíða lengur.“
Ófrískar konur þurfa að fara í ómskoðun þegar þær eru gengnar 20 vikur með barn. Þetta er ein mikilvægasta fósturgreiningin sem gerð er á meðgöngunni en auk hennar geta konur valið um að fara í 12 vikna ómskoðun eða snemmsónar og greitt fyrir það.
Þar sem Ásthildur hefur ekki komist vestur síðan í nóvember, hafa nokkrar barnshafandi konur þurft að fljúga suður til að fara í þessa 20 vikna ómskoðun. Sjúkratryggingar borga ferðina, en ekki er greitt fyrir maka. „Það er mjög ósanngjarnt fyrir þessar konur að fá ekki að hafa maka með sér. Ég tala nú ekki um ef eitthvað kemur upp í þessari skoðun, þá er mamman ein. Ég skil mjög vel að það sé erfitt.“
Ásthildur flutti frá Ísafirði árið 2009, og hefur flogið vestur að meðaltali tvisvar sinnum í mánuði síðan, til að ómskoða. Hún segist upphaflega hafa ætlað að gera þetta þar til einhver annar á svæðinu lærði ómskoðun og tæki við af henni. Rúmum fimm árum síðar hefur það ekki ennþá gerst.
Hún tók þá ákvörðun um áramótin að segja upp, og vinnur sinn uppsagnafrest til 1. apríl. „Þetta er aðallega af persónulegum ástæðum, en þetta er náttúrulega miklu meira en að segja það. Þetta er frábær vinnustaður fyrir vestan en aðstæðurnar eru bara breyttar fyrir mig.“
Ásthildur segir lækna sjá um ómskoðanir á sumum stöðum á landsbyggðinni, en það sé ekki gert á Ísafirði. Eftir að hún láti af störfum í apríl sé aðeins óvissan sem taki við, og neyðist konur þá til að fljúga til Reykjavíkur ef ekkert breytist.
Ásthildur segir það sorglega staðreynd að fæðingum fari fækkandi á svæðinu, en mikilvægt sé þó að starfsmaður sé á staðnum sem geti sinnt ómskoðununum. „Þær hafa verið að skoða það að læra þetta ljósmæðurnar sem eru þarna, en svo er spurningin hvort þær nái að halda sér við því þetta eru svo fáar skoðanir.“
Þá segir hún mjög mikilvægt að lausn finnist á þessu máli, svo barnshafandi konur á Vestfjörðum þurfi ekki að leggjast í ferðalag til að geta komist í ómskoðun. „Það er mín heitasta ósk að þær þurfi ekki að búa við þetta óöryggi. Það er auðvitað heilmikið óöryggi í því að enginn skuli vera á staðnum því það getur alltaf eitthvað komi upp á.“
Ekkert skipulagt nám er í kringum ómskoðanir á Íslandi, en að sögn Ásthildar fylgir því mikil þjálfun að læra á slíkt. Sjálf fór hún á námskeið í London, og var í um ár í þjálfun á Landspítalanum.
Loks segir Ásthildur ekki hægt að ásaka neinn um þessa óvissustöðu, en þó skilji hún vel fólkið sem býr á Vestfjörðum þar sem þessi þjónusta eigi að vera til staðar. „Ég hef fulla samúð með ungum konum á barneignaraldri því það er óöryggi sem fylgir því að hafa þetta ekki.“
„Mér er búið að líða virkilega illa yfir þessu og manni finnst maður vera að klikka, en auðvitað stjórnar maður ekki veðrinu þó maður reyni að stjórna mörgu öðru.“