Óvissustig vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á sunnanverðum Vestfjörðum og rýming enn í gildi á Patreksfirði og Tálknafirði en það verður endurmetið með morgninum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði er ágætt veður þar núna en töluvert hefur bætt í snjó í nótt.
Á Vestfjörðum er allar leiðir ófærar og verið að moka. Súðavíkurhlíð og Raknadalshlíð eru lokaðar. Snjóþekja og hálka er á Suðurlandi. Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Lyngdalsheiði er ófær.
Ófært er á Bröttubrekku og á Fróðárheiði og verið að moka. Hálka og skafrenningur í Svínadal en annars er hálka eða hálkublettir á Vesturlandi.
Beðið er eftir upplýsingum um færð á Norður- og Austurlandi en verið er að kanna ástandið. Þæfingsfærð og snjókima er á Víkurskarði en þungfært og skafrenningur er á Vatnsskarði.
Hálka eða hálkublettir er með Suðausturströndinni.
Óvissustigi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir á sunnanverðum Vestfjörðum á miðvikudag og á norðanverðum Vestfjörðum í gær. Rýming er í gildi á reitum 4, 10 og hluta af reit 5 á Patreksfirði og á reit 9 á Tálknafirði. Ekki er talin hætta í byggð á norðanverðum Vestfjörðum eins og er, en fylgst er með þróun í veðri.
Á miðvikudag var austan stormur víða um vestan- og sunnanvert landið. Mikil úrkoma var þá á sunnanverðum Vestfjörðum og um tíma á Austurlandi. Í gærkvöld bætti í úrkomuna á Vestfjörðum og vindur var norðanstæður.
Vitað er um nokkur snjóflóð sem fallið hafa síðasta sólarhringinn á sunnanverðum Vestfjörðum og nokkur snjóflóð í Bláfjöllum, þar af eitt sem vélsleðamaður setti af stað. Fáein flóð hafa einnig fallið á Mið-Norðurlandi.
Veðurspá fyrir næsta sólarhring:
Norðvestan 13-20 m/s og snjókoma eða él N-til, en þurrt syðra. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu. Norðlæg átt 5-13 um hádegi og dálítil él um landið norðanvert, annars bjart á köflum. Bætir í vind og ofankomu á Vestfjörðum og SA-lands í kvöld. Frost 0 til 6 stig.