Kári vill komast í strætó

Andri og Kári bíða eftir að Strætó taki sönsum.
Andri og Kári bíða eftir að Strætó taki sönsum.

Undirskriftasöfnun þar sem farið er fram á að dýr verði gjaldgengir farþegar í strætisvögnum hefur vakið mikla athygli á veraldarvefnum. Andri Kárason setti undirskriftarsöfnunina í gang þann 20. febrúar en á síðustu dögum tók hún mikinn kipp og hafa yfir 3.000 undirskriftir safnast á afar skömmum tíma. 

Kveikjan að undirskriftasöfnuninni er hundurinn Kári sem Andra tekur sárt að þurfa að skilja eftir einan.

„Ég hef notað strætó í nokkur ár og mér hefur alltaf fundist það leiðinlegt að geta ekki tekið Kára með mér ef ég er að fara langt. Svo erum við nýlega fluttir í Breiðholtið og ef ég er að fara út, þá eru það yfirleitt langar vegalengdir sem ég er að fara, og því verð ég oft að skilja hann einan eftir. Kári er mikil félagsvera og það er sorglegt að geta ekki tekið hann með í heimsóknir sem og aðra áfangastaði,“ segir  Andri.

Ofnæmisvaldurinn fyrir í vögnunum

Eftir að mbl.is sagði frá undirskriftarsöfnunni mynduðust eldheitar umræður á Facebook síðu vefsins um hvort það gæti gengið á réttindi annarra að vera með gæludýr í strætó, t.a.m. vegna ofnæmis. Andri er sjálfur með frjókornaofnæmi og segist skilja vel þau óþægindi sem ofnæmiseinkenni hafa í för með sér. Staðreyndin sé hinsvegar sú að sem hundaeigandi beri hann hvort eð er með sér ofnæmisvaldinn sem hundinum fylgir og því er hann þegar til staðar í strætisvögnum landsins.

„Sumir hafa lýst yfir áhyggjum af því að dýrin muni míga og skíta í vagnana, en ég held að allir sem hafi átt dýr viti að svo er ekki. Svo eru sumir sem eru hræddir við hunda, en hundarnir verða í taumi og valda ekki ónæði frekar en aðrir farþegar,“ bætir Andri við.

Á undirskriftasíðu Andra er markmiðið að ná 5.000 undirskriftum en hann segist hafa gripið þá tölu úr lausu lofti. „Ég geri ráð fyrir því að ef ég nái 5.000 þá hækki ég bara markið og safni þangað til mér finnst vera hættar að bætast við undirskriftir. Ég hafði í rauninni ekki hugmynd um það við hverju ég átti að búast, en ég hélt að það væri allavega hægt að ná upp í 5.000.“

Undirskriftirnar hyggst Andri afhenda forsvarmönnum Strætó bs. „Ég vona að þau ræði þetta mál á næsta stjórnarfundi og komist að skynsamlegri niðurstöðu sem henti öllum, bæði dýraeigendum og þeim sem líkar ekkert alltof vel við dýr.“ 

 Hægt er að skrifa undir með því að smella hér.

Andra tekur sárt að skilja Kára eftir þegar hann nýtir …
Andra tekur sárt að skilja Kára eftir þegar hann nýtir sér almenningssamgöngur. mbl.is/ Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka