Lagagreinarnar sem farið var gegn

Gísli Freyr Valdórsson fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra.
Gísli Freyr Valdórsson fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra. mbl.is/Golli

Með því að skrá ekki í málaskrá lögreglunnar á Suðurnesjum og innanríkisráðuneytisins miðlun skýrsludraga um hælisleitandann Tony Omos fóru bæði embættið og ráðuneytið á svig við 1. og 2. mgr. 11. gr. og 12. gr. laga nr. 77/2000, þ.e. lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

1. mgr. 11. gr. laga nr. 77/2000 hljóðar svo

Ábyrgðaraðili skal gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar gegn ólöglegri eyðileggingu, gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi.

2. mgr. 11. gr. laga nr. 77/2000 hljóðar svo:

Beita skal ráðstöfunum sem tryggja nægilegt öryggi miðað við áhættu af vinnslunni og eðli þeirra gagna sem verja á, með hliðsjón af nýjustu tækni og kostnaði við framkvæmd þeirra.

1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/2000 hljóðar svo:

Ábyrgðaraðili skal viðhafa innra eftirlit með vinnslu persónuupplýsinga til að ganga úr skugga um að unnið sé í samræmi við gildandi lög og reglur og þær öryggisráðstafanir sem ákveðnar hafa verið.

2. mgr. 12. gr. laga nr. 77/2000 hljóðar svo:

Innra eftirlit skal viðhaft með reglubundnum hætti. Tíðni eftirlitsins og umfang þess skal ákveðið með hliðsjón af áhættunni sem er samfara vinnslunni, eðli þeirra gagna sem unnið er með, þeirri tækni sem notuð er til að tryggja öryggi upplýsinganna og kostnaði af framkvæmd eftirlitsins. Það skal þó eigi fara fram sjaldnar en árlega.

Ekki stutt viðhlítandi heimild.

Þá segir í úrskurði Persónuverndar að skýrsludrögin hafi ekki verið á meðal gagna í máli sem var til meðferðar hjá innanríkisráðuneytinu vegna Omos. Því féll miðlun þeirra ekki undir heimildir til vinnslu persónuupplýsinga í ljósi þess að nauðsyn hafi staðið til hennar í þágu stjórnsýslumáls.

Einnig segir að miðlun upplýsinganna hafi ekki fallið undir vinnsluheimildir á öðrum grundvelli. Á það sama við um bæði lögregluna á Suðurnesjum og innanríkisráðuneytið.

Því segir í úrskurðarorðum Persónuverndar að beiðni aðstoðarmanns innanríkisráðherra um skýrsluna um Omos og miðlun hennar hafi ekki verið studd viðhlítandi heimild.

Frétt mbl.is: Miðlunin ekki studd viðhlítandi heimild

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert