Persónuvernd skoðaði ekki sérstaklega stöðu Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga vegna athugunar á miðlun greinargerðar um hælisleitandann Tony Omos. Var það sökum þess að umboðsmaður Alþingis hafði áður sent forsætisráðherra ábendingu um aðstoðarmenn ráðherra.
Eins og kom fram á mbl.is í gær komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að viðhlítandi heimild skorti fyrir lögreglustjórann á Suðurnesjum til að miðla umræddri greinargerð um Omos til Gísla Freys, en einnig að sömu heimild skorti til að biðja um greinargerðina.
Frétt mbl.is: Miðlun ekki studd viðhlítandi heimild
Í úrskurði Persónuverndar segir að við ákvörðun um hvernig gæta beri að stöðu aðstoðarmanna ráðherra reyni meðal annars á 2. mgr. 22. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands, en þar er mælt fyrir um það meginhlutverk aðstoðarmanns ráðherra að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra. Þar segir einnig að aðstoðarmanni ráðherra sé óheimilt að rita undir stjórnvaldserindi fyrir hönd ráðherra.
Síðan segir í úrskurðinum: „Fyrir liggur að umboðsmaður Alþingis hefur sent ábendingu til forsætisráðherra, þ.e. með bréfi 22. janúar 2015, um mikilvægi nánari reglna um verksvið aðstoðarmanna ráðherra. Að svo stöddu telur Persónuvernd í ljósi þess að ekki sé ástæða til nánari umfjöllunar um það atriði hvað varðar vinnslu persónuupplýsinga.
Stofnunin hefur hins vegar ákveðið að leita eftir skýringum á því hvernig brugðist sé við þessari ábendingu að því marki sem reynir á vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við hana. Verður það gert með sérstöku bréfi til forsætisráðuneytisins.“
Í umræddu bréfi umboðsmanns Alþingis til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, kom hann tilteknum ábendingum á framfæri um hlutverk og stöðu aðstoðarmanna ráðherra. Vakti hann athygli forsætisráðherra á að ástæða kunni að vera til þess að taka til skoðunar hvort í leiðbeiningum til aðstoðarmanna eigi að koma fram afstaða til þess hvort og þá hvernig aðstoðarmenn megi haga beinum samskiptum sínum við forstöðumenn og starfsmenn undirstofnana viðkomandi ráðuneytis og um heimildir þeirra til að fá aðgang að gögnum um einstök stjórnsýslumál hjá undirstofnununum, og innan ráðuneytisins, og eftir atvikum aðkomu ráðherra að ákvörðun þar um.
Umboðsmaður segir einnig að nánari reglur um þessi atriði séu ekki síst mikilvægar fyrir forstöðumenn og starfsmenn undirstofnana og aðila þeirra stjórnsýslumála sem aðstoðarmenn kunna að koma að samkvæmt ákvörðun ráðherra.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í gær að það hafi því verið innanríkisráðuneytisins að tryggja að rétt yrði farið með umrædda greinargerð og að það hefði verið mat lögreglunnar á Suðurnesjum að lagaleg heimild væri til staðar fyrir miðlun hennar.
Frétt mbl.is: Gerðist ekki brotleg við lög