1. Eldgosið í Holuhrauni hófst þann 31. ágúst árið 2014. Það stóð því yfir í 180 daga. Hér má sjá fyrstu frétt mbl.is eftir að gosið hófst.
2. Í lok janúar mældist hraunbreiðan 84,6 ferkílómetrar. Þá hafði gosið staðið yfir í fjóra mánuði. Um miðjan febrúar var hraunbreiðan orðin 85 ferkílómetrar, og ljóst að verulega var farið að draga úr útbreiðslu hennar.
3. Í lok janúar var farið að draga verulega úr gosinu. Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur spáði því á bloggsíðu sinni í október að gosið myndi standa fram í mars á þessu ári. Reyndist spá hans ansi nákvæm.
4. Í febrúar tók svo að draga heldur úr skjálftavirkninni og styrkti það trú vísindamanna á því að gosið nálgaðist endalok sín.
5. Í fljótu bragði virðist sem stærstu jarðskjálftarnir á svæðinu hafi orðið 5,5 að stærð. Skömmu fyrir gosið var þó skjálfti sem var 5,7 stig en þá voru engin ummerki um eldgos.
6. Töluverð gasmengun hefur orðið af gosinu. Í október á síðasta ári varð mengunin svo mikil á Höfn að íbúar fundu fyrir óþægindum og börnum var haldið innandyra.
Hér má sjá myndskeið með ljósmyndum Ragnars Axelssonar, ljósmyndara Morgunblaðsins af gosinu. Myndskeiðið er frá nóvember 2014.