Fórnarlömb sjúks fjármálakerfis

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. Rax / Ragnar Axelsson

„Ég ætla að ganga lengra en að segja að Evrópusambandið sé í krísu. Ég held að til þess að skilja heiminn í kringum okkur á þessum tímum, þá þurfum við að átta okkur á því að við erum hluti af og fórnarlömb alþjóðlegs fjármálakerfis sem er sjúkt í innsta eðli.“

Þetta sagði Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, í Eyjunni á Stöð 2 á sunnudag. Í samtali við þáttastjórnanda, Björn Inga Hrafnsson, tjáði Jón sig m.a. um stöðu mála í Úkraínu og afnám gjaldeyrishafta.

Þá sagði hann Ísland ekki á leið í Evrópusambandið.

Jón Baldvin sagði m.a. að hið alþjóðlega fjármálakerfi hefði vaxið þjóðríkjum og stjórnmálaöflum yfir höfuð, og sett miklar fjárhagslegar skuldir á herðar almennings frá hruni.

„Uppreisn almennings, sem við erum að upplifa í Grikklandi og munum upplifa á Spáni innan skamms, byggist á því að stjórnmálakerfið hefur brugðist,“ sagði Jón Baldvin. Hann sagði hið stjórnlausa fjármálakerfi hafa byggt upp þvílík völd að í stað fúnkerandi lýðræðis væri auðræði við lýði. Dæmi um þetta væru viðtökur manna í Brussel gagnvart nýkjörnum stjórnvöldum í Grikklandi.

„Um það er að segja; ætlum við að virða lýðræðislegar niðurstöður kosninga ef einhverjum í Brussel eða í forystu Evrópusambandsins í Þýskalandi mislíkar það?“ sagði Jón Baldvin, en Ingi Hrafn greip ummælin á lofti og skaut á móti: „Já bíddu við, hér talar Jón Baldvin Hannibalsson. Eiga Íslendingar að fara þarna inn?“

„Nei nei, við erum ekkert á þeirri leið, og taktu eftir því að ég segi við erum ekkert á leiðinni inn í Evrópusambandið á næstunni,“ svaraði Jón Baldvin. Hann sagði Evrópusambandið í fjármála- og hagstjórnarkrísu, en sú niðurskurðarpólitík sem Þýskaland hefði þröngvað upp á Evrópu hefði ekki skilað neinum árangri.

„Og í þriðja lagi er Evrópusambandið núna, eins og reyndar Bandaríkin, í stjórnmálakreppu, einfaldlega vegna þess að hagsmunir fjármagnsins eru svo ráðandi að lýðræðislegar breytingar í gegnum kosningar komast kannski ekki til skila. Kannski erum við að upplifa það. Í slíku ástandi skapast jarðvegur fyrir fasisma og rasisma, við erum líka að upplifa það,“ sagði hann.

Jón Baldvin sagði pólitíska umræðu á Íslandi tuð, en aðspurður um „vandræði á vinstri vængnum“ sagðist Jón telja að heimavinnuna skorti hjá stjórnarandstöðunni.

„Stjórnarandstaða nær engum árangri nema hún sannfæri fólk um það að hún hafi aðra framtíðarsýn, aðrar lausnir, og að þær séu raunverulegar og trúverðugar,“ sagði hann m.a.

Hér má sjá viðtal Björns Inga við Jón Baldvin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert