Enn á ný er komið að því sem margir hafa beðið eftir en aðrir kannski kviðið fyrir. Marsmánuður er genginn í garð sem fjölmargir áhugamenn og -konur um yfirvaraskegg hafa beðið eftir en Mottumars var settur í dag um borð í Helgu Maríu, togara HB Granda, í Reykjavíkurhöfn.
Sem fyrr er mottumars helgaður fjáröflun og vitundarvakningu um krabbamein á meðal karla. Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, leggur sitt af mörkum og lét raka á sig mottu í tilefni dagsins en einnig er búið að mála myndarlega mottu á skipið.
Nokkrar staðreyndir um krabbamein á meðal karla á Íslandi:
Nú eru á lífi um 5.600 karlar sem fengið hafa krabbamein.
Algengast er krabbamein í blöðruhálskirtli, lungum og ristli (ristli og endaþarmi).
Tæpur helmingur þeirra sem greinast er á aldrinum frá 40 til 69 ára.
Meðalaldur við greiningu sjúkdómsins er um 67 ár.
Lífshorfurnar hafa batnað mikið. Um 26% karla sem greindust með krabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 66% vænst þess að lifa svo lengi.
Þriðji hver karl getur búist við að fá krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni.
Talið er að um tíunda hvert krabbamein skýrist af arfgengum þáttum.
Hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, til dæmis með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð.
Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist, því meiri líkur eru á lækningu.