Iðnaðarhverfinu í Súðarvogi og nágrenni verður á næstu árum breytt í íbúðarbyggð.
Þetta kemur fram í greinaflokknum Heimsókn á höfuðborgarsvæðið í Morgunblaðinu í dag.
Skammt neðan Sæbrautar og norðvestan við Geirsnefið má finna lítið iðnaðarhverfi falið ofan í voginum. Hér er enga ferðamenn að sjá heldur einungis það fólk sem vinnur verkin að tjaldabaki, án nokkurrar viðhafnar eða óþarfa fegrunar. Á gangi um hverfið finnur maður fyrir taktföstum púlsi atvinnulífsins.
Slagæð hverfisins liggur um götuna Súðarvog þar sem margs konar fyrirtæki með ólíka starfsemi hafa skotið rótum. Sumar rætur ná þó dýpra en aðrar og það á til dæmis við um fyrirtækið Rafstillingu sem opnaði dyr sínar við Súðarvog fyrir heilum aldarfjórðungi.
„Fyrirtækið stendur sterkum fótum og viðskiptin ganga vel sem endranær,“ segir Kristinn Ágústsson sem rekið hefur fyrirtækið frá árinu 1979. Hann segir staðsetninguna henta fyrirtækinu vel.
Lék sér sem barn í fjörunni
„Auk þess var ég alinn upp hérna skammt fyrir ofan svo að ég er á heimaslóðum. Þetta eru leikstöðvar æskuminninganna, fjörurnar hérna fyrir neðan,“ segir hann. „En nú stendur mikið til og breyta á öllu hverfinu.“Kristinn vísar þarna til áætlana borgaryfirvalda en þau hafa um nokkurt skeið íhugað að breyta iðnaðarhverfinu umhverfis Súðarvog í hverfi íbúða og verslunar. Sú þróun er jafnvel þegar komin á skrið enda segir Kristinn að hverfið hafi breyst töluvert síðan hann festi rætur.
„Iðnaðurinn hefur smám saman hrakist burt á kostnað einhvers annars. Sjóklæðagerðin, Vogakaffi og Skáprent eru dæmi um fyrirtæki sem hafa vikið til að rýma fyrir lagerhúsnæði, geymslum og íbúðum hvers konar. Efstu hæðirnar í Súðarvogslengjunni eru þannig flestar orðnar að íbúðum,“ segir Kristinn, en tekur þó fram að hann hafi enga sérstaka skoðun á áformum borgaryfirvalda.
„Mér hefur samt alltaf fundist það stórskrýtin ákvörðun að velja iðnaðarhverfunum stað á bestu lóðum bæjarins, meðfram strandlengjunni,“ segir Kristinn.
Hverfið alltaf verið subbulegt
Við hlið Rafstillingar stendur bifreiðaverkstæðið PS Rétting sem Pálmi Thorarensen á og rekur. Hann segist þó vera að setjast í helgan stein. „Ég var með fullt af mönnum í vinnu en er búinn að draga í land. Ég er eiginlega kominn á aldur og nú er bara að slappa af,“ segir Pálmi.„Nú er von á því að þessu verði öllu breytt í íbúðir. Verslanir og ýmislegt tengt listum mun þá vera í neðri hluta lengjunnar. Það gæti verið mjög sniðugt, gatan snýr út að voginum og hefur flott útsýni. Þetta hefur alltaf verið subbulegt með öllum þessum verkstæðum eins og vill oft verða í iðnaðarhverfum sem þessum.“ Þá bætir hann við að andrúmsloft hverfisins hafi breyst töluvert eftir að fólk hóf að búa þar.
„Þá breyttist þetta mikið og þó einkum í fyrstu eftir að fólk hóf búsetu. Þá fengum við oft fólk til okkar sem kom að kvarta yfir hávaða. Í iðnaðarhverfi,“ segir Pálmi og hlær.
„Nánari greiningar gefa þó til kynna að svæðið rúmi mun fleiri íbúðir og því er nú verið að ganga frá áætlunum sem taka mið af því.“
Spurður um bogalengjuna svokölluðu, sem hýsir bæði Rafstillingu og PS Réttingu, segir Hjálmar að hún muni fá að standa óhreyfð.
„Sú lengja er mjög formfögur og okkur finnst engin ástæða til að hún víki fyrir frekari framkvæmdum. Þvert á móti höfum við hugsað okkur að á neðri hæðunum verði verslanir og léttur iðnaður en á efri hæðunum verði íbúðir. Á milli Kleppsmýrarvegs og Tranavogs eru stórar skemmur og við eigum í viðræðum við eigendur þeirra um að það svæði verði lagt undir íbúðarhúsnæði í framtíðinni.“