Amerískur bar opnaður í Austurstræti

Veitinga- og skemmtistaðurinn American Bar verður opnaður á morgun í Austurstræti 8, þar sem Thorvaldsen var áður til húsa. Eins og nafnið gefur til kynna verður áherslan á amerískan mat, tónlist og skemmtun. Mbl.is kíkti á svæðið og fékk að skoða staðinn.

Boðið verður upp á hamborgara, svínarif og kjúklingavængi - og einnig verður amerískur bjór, viskí og kokteilar á boðstólum. Þá verður spilað mikið rokk á staðnum, og tónlistarmyndbönd keyrð á sjónvarpssjám.

Það eru bræðurnir Hermann og Ingvar Svendsen, sem standa að baki staðnum, en þeir segja amerískan bar hafa sárlega vantað í íslenskt skemmtanalíf. Mikil amerísk stemning ríkir á staðnum, en það var Leifur Welding sem hannaði útlitið. Leifur hefur einnig komið að hönnun veitingastaða á borð við Grillmarkaðinn, Fiskfélagið og Sushi Samba.

Dyrnar verða opnaðar fyrir almenning annað kvöld, laugardagskvöld, klukkan tíu, og geta gestir og gangandi þá kíkt inn á staðinn, fengið sér amerískan bjór í frosnu glasi og snúið lukkuhjólinu.

American Bar á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert