Hefur áhyggjur af ofbeldi unglinga

Dís Gylfadóttir.
Dís Gylfadóttir. mbl.is/Rax

Um 500 manns hljóta heilaskaða á hverju ári á Íslandi, af þeim þurfa um 50-80 á sérhæfðri endurhæfingu að halda. Stór hluti þess hóps er ungt fólk. Dís Gylfadóttir lenti í bílslysi þegar hún var 19 ára og hlaut heilaskaða. Hún er ein þeirra heppnu sem hafa náð góðum bata. Hún hefur áhyggjur af hópslagsmálum unglinga því þeir geri sér ekki grein fyrir alvarlegum afleiðingum höfuðhögga.

„Ég mun prédika í guðsþjónustu í Ástjarnarkirkju á sunnudaginn og fjalla um orsakir og afleiðingar heilaskaða. Heilaskaði er fötlun sem fengið hefur litla umfjöllun í samfélaginu og því vantar mikið upp á skilning almennings og stjórnvalda á málefninu,“ segir Dís Gylfadóttir guðfræðingur, en hún lenti í bílslysi fyrir 12 árum, þegar hún var aðeins 19 ára, og hlaut við það mikla höfuðáverka og dreifðan heilaskaða. Hún lamaðist m.a. vinstra megin en náði fullum styrk að lokum eftir mikla endurhæfingu.

Dís er í stjórn Hugarfars, félags fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið, en Hugarfar ætlar að vera með vitundarvakningardag 18. mars, til vekja athygli á orsökum og afleiðingum heilaskaða.

„Hugarfar var stofnað árið 2007, af þeirri einföldu ástæðu að það var mikil þörf fyrir félag til að styðja við einstaklinga með heilaskaða og aðstandendur þeirra. Þetta er mikill fjöldi sem slasast á hverju ári. Helstu ástæður heilaskaða hjá börnum og eldra fólki eru föll, en stærsti hópur þeirra sem hljóta heilaskaða er ungt fólk sem slasast í bílslysum eða verður fyrir ofbeldi. Við heyrum kannski frétt af einhverjum sem varð fyrir árás og að sparkað hafi verið í höfuð hans, en svo heyrum við ekkert meira og vitum ekkert hvernig þessum aðila farnast eftir slíka árás. Viðkomandi er jafnvel í endurhæfingu á Grensás í heilt ár og nær sér kannski aldrei aftur. Svo ekki sé talað um alla þá sem deyja af völdum heilaskaða.“

Heilaskaði Guðrúnar eftir að hún varð fyrir árás

„Mér finnst svo hræðilegar þessar fréttir sem borist hafa nýlega af unglingum í hópslagsmálum, skipulagt ofbeldi sem er tekið upp á myndband og dreift. Þar eru þessir krakkar að berja hvert annað í höfuðið. Þau hafa ekki hugmynd um hversu alvarlegar afleiðingar þetta getur haft. Við í Hugarfari erum búin að senda öllum grunnskólum á landinu fræðslumyndband sem ætlað er til forvarna og við mælumst til að það verði sýnt í unglingadeildum skólanna á vitundarvakningardeginum. Í þessu myndbandi segir fólk frá reynslu sinni, bæði þeir sem hafa fengið heilaskaða og aðstandendur þeirra. Meðal annars fáum við að heyra sögu mæðgna, þeirra Barböru Ármannsdóttur og Guðrúnar Jónu Jónsdóttur, en Guðrún varð fyrir árás þriggja unglingsstúlkna þegar hún var 15 ára og hlaut mikinn og varanlegan heilaskaða. Einnig útskýra læknar ýmislegt tengt heilaskaða í þessu myndbandi.“

Líka duldar afleiðingar

Dís segir að erfitt hafi verið fyrir sig að takast á við ósýnilegar afleiðingar heilaskaðans sem hún hlaut fyrir 12 árum.

„Ég var breytt manneskja, ég réð ekki við skólann og mér fannst ég dragast aftur úr í vinahópnum. Ég las mjög hægt og ég var aðeins með fimmtíu prósent sjón fyrst eftir slysið. En ég var heppin, því ég hef náð mér mjög vel. Það er ekki síst því að þakka hversu gott stuðningsnet ég hef í kringum mig, foreldrar og vinir hafa stutt mig áfram. Framheilaskaða fylgir skert innsæi í eigin mál, maður sér ekki sjálfur hvað er að og skilur ekkert í því hvers vegna maður mætir alls staðar hindrunum. Fólk fer til dæmis aftur í skóla og heldur að það ráði við það, en skilur ekki hvers vegna það gerir það ekki, fólk fer aftur í vinnu en ræður ekki við það, því bæði minnisleysi og framtaksleysi er fylgifiskur heilaskaða. Afleiðingarnar eru oft duldar og sjást ekki utan á fólki.“

Dís segir það bagalegt að engin endurhæfingarúrræði séu á Íslandi fyrir þá sem hjóta heilaskaða, aðeins bráðameðferð á Grensás, en eftir það taki ekkert við.

„Ekki hafa allir gott stuðningsnet í kringum sig og þá þróast þetta oft ekki vel, algengt er að fólk missi vini sína eftir heilaskaða því persónuleiki þess breytist, og margir lenda í óreglu. Okkar draumur í Hugarfari er að koma á fót nokkurs konar starfs-endurhæfingarúrræði til að byggja fólk upp eftir heilaskaða, svo það nái að fóta sig aftur í lífinu.“

Forvarnarmyndband í skóla

Hugarfar, félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið, mun standa fyrir vitundarvakningardegi um ákominn heilaskaða miðvikudaginn 18. mars, til að vekja athygli á orsökum og afleiðingum heilaskaða.

Ákominn heilaskaði orsakast oftast af ytri áverka sem er tilkominn vegna ofbeldis, slysa og falla. Afleiðingarnar reynast oft dulin fötlun sem ekki sést utan á fólki en getur valdið því víðtækum vanda.

Stjórn Hugarfars hefur sent öllum grunnskólum landsins beiðni um að sýna í unglingadeildum forvarnarmyndbandið Heilaskaði af völdum ofbeldis. Vegna nýlegra frétta af skipulögðu ofbeldi barna og unglinga vonast þau til að sem flestir skólar taki þátt í þessu.

Nánar á: www.hugarfar.is

Guðrún Jóna Jónsdóttir ásamt móður sinni, Barböru Ármannsdóttur, í forvarnarmyndbandi. …
Guðrún Jóna Jónsdóttir ásamt móður sinni, Barböru Ármannsdóttur, í forvarnarmyndbandi. Guðrún hlaut heilaskaða eftir árás.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert