Lýsing tapar í Hæstarétti

Lýsing hefur farið halloka í Hæstarétti.
Lýsing hefur farið halloka í Hæstarétti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur Íslands felldi tvo gengislánadóma í gær en Lýsing hf. tapaði í báðum málunum. „Deilumál, sem rata til dómstóla vegna gengislána eru oft mjög flókin og tæknileg en óhætt að segja að með þessum tveim dómum eru á þrotum síðustu varnir Lýsingar. Þeir eru búnir með allan þann málatilbúnað sem þeir hafa tjaldað til. Ég trúi því ekki öðru en að þessir tveir dómar hafi fordæmisgildi fyrir alla bílasamninga Lýsingar, sem almenningur er með,“ segir Ólafur Örn Svansson hæstaréttarlögmaður. Dómar Hæstaréttar hafa því fordæmisgildi í meira en fjögur hundruð öðrum sambærilegum málum.

Endurútreikningur vaxta

Ágreiningur í málunum tveim laut að því hvort lántakendur gætu borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiddra vaxta frá stofndegi lánssamningsins til maí 2010, vegna þess hluta lánsins sem bundinn var ólögmætri gengistryggingu. Lýsing hafði með endurútreikningi sínum reiknað sér viðbótarvexti fyrir liðna tíð eða frá stofndegi lánssamningsins til júní 2010 en endurreikningar lánanna fóru fram í október 2010. „Lántakendurnir báru fyrir sig fullnaðarkvittanir með fyrirvaralausum afborgunum gagnvart þeim vöxtum sem þau höfðu greitt frá stofndegi lánsins. Þau voru því búin að greiða vexti fram að endurútreikningi lánsins. Niðurstaða Hæstaréttar lýtur svo að því að Lýsing má ekki endurreikna vexti lánanna með seðlabankavöxtum aftur að stofndegi lánsins,“ segir Ólafur og bendir á að í síðara málinu sé gengið lengra og komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki skipti máli þó vanskil hafi verið á vaxtagreiðslum. „Sú niðurstaða er mjög áhugaverð og mun hafa gífurleg áhrif á önnur mál en þrátt fyrir vanskil á öllum vaxtagreiðslum má ekki samkvæmt dóminum endurreikna vexti eins og Lýsing gerði,“ segir hann.

Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Lýsingar, segir það vissulega rétt að Hæstiréttur hafi fallist á rök gagnaðilans um vægari skilyrði fyrir beitingu fullnaðarkvittunar en Lýsing taldi rétt en það sé orðum aukið að ekki hafi verið litið til varna félagsins.

„Í niðurlagskafla dómsins um samsetta samninginn vann Lýsing. Aðalmálið snýst hins vegar um hvort dómarnir skýri réttarstöðuna,“ segir Þór og bendir á að nú þurfi að gefa lögfræðingum Lýsingar svigrúm til að fara yfir dómana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert